Fara í efni
Fréttir

Andlát: Björgvin Þorsteinsson

Björgvin Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður og einn fremsti kylfingur Íslands, er látinn eftir nokkurra ára glímu við krabbamein. Hann lést síðastliðna nótt, 68 ára að aldri.

Björgvin fæddist á Akureyri 27. apríl 1953, sonur hjónanna Þorsteins Magnússonar og Rósu Jóhannsdóttur.

Eiginkona Björgvins er Jóna Dóra Kristinsdóttir. Dóttir Björgvins af fyrra hjónabandi er Steina Rósa Björgvinsdóttir. Sonur Jónu Dóru og stjúpsonur Björgvins er Kristinn Geir Guðmundsson.

Björgvin er sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, sá næst sigursælasti í karlaflokki. Hann varð fyrst Íslandsmeistari í fullorðinsflokki 1971, lenti í öðru sæti árið eftir en gerði sér svo lítið fyrir og varð Íslandsmeistari fimm ár í röð, 1973 til 1977. Það afrek hefur enginn leikið eftir.

Björgvin var á meðal keppenda á Íslandsmótinu sem fram fór á Jaðarsvelli á Akureyri í sumar. Það var í 56. skipti sem hann tók þátt í mótinu; Björgvin lék á 55 Íslandsmótum í röð og mætti aftur til leiks í sumar eftir tveggja ára hlé. Hann varð margfaldur klúbbmeistari, og Íslandsmeistari öldunga, auk þess sem Björgvin var landsliðsmaður í fjöldamörg ár.

Á Íslandsmótinu í sumar var í fyrsta sinn keppt um Björgvinsskálina;  verðlaunagrip sem Björgvin hlaut fyrir fyrsta Íslandsmeistaratitilinn, þegar hann varð meistari í unglingaflokki 17 ára að aldri á heimavelli sínum, Jaðarsvelli á Akureyri, árið 1970. Hann ánafnaði Golfsambandi Íslands skálina og verður hún veitt þeim áhugamanni sem leikur á lægsta skori í kvenna- eða karlaflokki á Íslandsmótinu ár hvert.

Um síðustu helgi var Björgvin sæmdur Heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á þingi ÍSÍ. Hann var virkur í leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar árum saman; sat m.a. annars í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967 til 1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998 til 2002. Björgvin sat í Áfrýjunardómstól ÍSÍ þegar hann lést og hafði verið kjörinn á Íþróttaþingum ÍSÍ til starfa hjá dómstólnum síðastliðin ríflega tuttugu ár.

Blessuð sé minning Björgvins Þorsteinssonar.

Björgvin Þorsteinsson slær af 1. teig á Jaðarsvelli á Íslandsmótinu í ágúst síðastliðnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.