Fara í efni
Fréttir

Andlát: Björg Finnbogadóttir

Mynd af Björgu: Þórhallur Jónsson

Björg Finnbogadóttir lést á Akureyri þriðjudaginn 23. maí. Hún fæddist 25. maí 1928 á Eskifirði og hefði því orðið 95 ára í dag. Björg var dóttir hjónanna Dórotheu Kristjánsdóttur og Finnboga Þorleifssonar. Hún ólst upp á Eskifirði til tíu ára aldurs, er fjölskyldan fluttist til Akureyrar.

Björg, jafnan kölluð Bella Finnboga, giftist Baldvini Þorsteinssyni skipstjóra. Hann lést árið 1991. Börn þeirra eru þrjú, Margrét kennari á Akureyri, Þorsteinn Már forstjóri Samherja og Finnbogi, framkvæmdastjóri og ráðgjafi, búsettur í Þýskalandi.

Hún lærði hárgreiðslu og starfaði við margvísleg störf um ævina, lengst af á skrifstofu sláturhúss KEA á Akureyri.

Björg var virk í félagsstarfi bæjarins. Segja má að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli hafi oft á tíðum verið hennar annað heimili. Þar eignaðist hún fjölmarga vini sem hún hélt góðu sambandi við alla tíð. 

Hún heillaðist af golfíþróttinni á fullorðinsárum og stundaði hana af kappi með góðum vinum. Sást til hennar á golfvellinum síðasta sumar, þá 94 ára.

Björg var formaður Félags eldri borgara á Akureyri til margra ára. Hún fylgdist grannt með bæjar- og þjóðmálum og var annt um velferð samborgara sinna.

Björg Finnbogadóttir í Hlíðarfjalli um páskana árið 2018, nokkrum vikum fyrir 90. afmælisdaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson