Andlát: Bernharð Haraldsson

Bernharð Sigursteinn Haraldsson, fyrsti skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA), er látinn, 86 ára að aldri. Greint er frá andláti Bernharðs í Morgunblaðinu í dag.
Bernharð fæddist í Árnesi í Glerárþorpi 1. febrúar 1939 og ólst upp á Akureyri. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 20. maí.
Foreldrar hans voru Þórbjörg Sigursteinsdóttir, húsfreyja og verkakona, ættuð úr Hörgárdal, og Haraldur Norðfjörð Ólafsson frá Brekku í Glerárþorpi, sjómaður og netagerðarmaður.
Bernharð lauk stúdentsprófi frá MA árið 1959. Hann nam þýsku við háskólann í Freiburg í Vestur-Þýskalandi 1959-1960, lauk BA-prófi í landafræði og mannkynssögu og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1966 og stundaði nám í hagrænni landafræði við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1988-1989.
Bernharð kenndi við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1966-1967, Gagnfræðaskóla Akureyrar 1960-1962 og 1967-1981, var yfirkennari þar 1981-1982 og skólastjóri 1982-1983. Samhliða kennslu var Bernharð leiðsögumaður með þýska ferðamenn.
Bernharð var skipaður skólameistari Verkmenntskólans á Akureyri 1. júní 1983 en skólinn var formlega stofnaður ári síðar, 1. júní 1984, og settur í fyrsta skipti 1. september það ár. Bernharð vann ötullega að stofnun hins nýja skóla og uppbyggingu verkmenntunar á Akureyri. Undir stjórn Bernharðs og með fulltingi Hauks Ágústssonar og Adams Óskarssonar var VMA frumkvöðull í fjarkennslu. Bernharð gegndi embætti skólameistara til 1999.
Bernharð var skólamaður af lífi og sál og ritaði tvær bækur um skólasögu. Hann vann að rannsóknum á ábúendasögu í Eyjafirði og kom að útgáfu nokkurra ritverka á því sviði. Bernharð tók virkan þátt í bæjarmálum á Akureyri og átti sæti í menningarmálanefnd Akureyrar og nefnd um kennslu á háskólastigi á Akureyri er lagði grunn að stofnun Háskólans á Akureyri. Enn fremur var hann formaður Lyftingaráðs Akureyrar og félagi í Rótarýklúbbi Akureyrar.
Eftirlifandi eiginkona Bernharðs er Ragnheiður Hansdóttir, tannlæknir og sérfræðingur í bitlækningum. Þau gengu í hjónaband 1966 og eignuðust fjögur börn: Harald, Hans Braga, Arndísi og Þórdísi. Barnabörnin eru sjö og það áttunda er á leiðinni.
Minningarathöfn verður haldin í Bústaðakirkju 10. júní klukkan 13. Útför Bernharðs fer fram frá Akureyrarkirkju 13. júní kl. 13.