Fara í efni
Fréttir

Andlát: Ásgeir Jónsson

Akureyringurinn Ásgeir Jónsson, söngvari hljómsveitarinnar Baraflokksins, er látinn. Ásgeir fæddist 22. nóvember 1962 og var því 59 ára þegar hann lést.

Ásgeir stofnaði Baraflokkinn árið 1979 og var aðal laga- og textahöfundur hljómsveitarinnar. Hún starfaði til ársins 1984, naut mikilla vinsælda og gaf út þrjár plötur – Baraflokkurinn (1981), Lizt (1982) og Gas (1983).

Þekktustu lög Baraflokksins eru: Matter of time af Gas plötunni, Catcher coming af þeirri fyrstu og tvö af Lizt; I don´t like your style og Motion, en það síðastnefnda lék hljómsveitin í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson, sem frumsýnd var 1982. Sama sumar lék sveitin á Melarokki, tónlistarhátíð sem fram fór á Melavellinum, gamla íþróttavellinum við Suðurgötu í Reykjavík. 

Baraflokkurinn flutti eins og hann lagði sig til Reykjavíkur haustið 1984 en smám saman fjaraði undan hljómsveitinni. Hún fór í frí um jólin 1984 og því fríi lauk aldrei. Eftir að Bara flokkurinn fór í fríið starfaði Ásgeir árum saman við hljóðupptökur og hljóðblöndun.

Árið 2000 var gefin út safnplatan Zahír og kom hljómsveitin saman á ný að því tilefni og hélt tónleika á veitingastaðnum Gauki á Stöng í höfuðborginni. Þá hafði hún ekki sést á sviði í 16 ár.

Árið 2010 hélt Baraflokkurinn upp á 30 ára afmæli sitt með tvennum eftirminnilegum tónleikum á Akureyri, í menningarhúsinu Hofi og á Græna Hattinum. Á 150 ára afmæli Akureyrarbæjar kom Baraflokkurinn svo enn og aftur fram, á afmælistónleikum í Gilinu.

Baraflokkurinn kom síðast fram á Græna Hattinum á Akureyri á páskum 2018.

Ásgeir Jónsson var ókvæntur og barnlaus. Þrjú systkini hans lifa bróður sinn.

Frá tónleikum Baraflokksins í Hofi árið 2010. Ásgeir fremstur á sviðinu og gamalli mynd af honum varpað á tjald aftan við hljómsveitina. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson