Fara í efni
Fréttir

Andlát: Anna Kolbrún Árnadóttir

Anna Kolbrún Árnadóttir, fyrrverandi alþingismaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, er látin. Anna Kolbrún, sem var 53 ára, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri í gærmorgun.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, greindi frá andláti Önnu Kolbrúnar við upphaf þingfundar í dag. Hún var varaþingmaður á þessu kjörtímabili. Anna Kolbrún hafði glímt við krabbamein í 12 ár, síðan í apríl 2011.

Anna Kolbrún fæddist á Akureyri 16. apríl 1970. Foreldrar hennar eru Árni V. Friðriksson og Gerður Jónsdóttir. Eiginmaður hennar er Jón Bragi Gunnarsson. Dóttir Önnu Kolbrúnar er Þóra Aldís. Synir Jóns Braga og stjúpsynir Önnu Kolbrúnar eru Ingi Þór, Gunnar Björn og Magnús Pálmar.