Fara í efni
Fréttir

Andlát: Aðalsteinn Jónsson

Aðalsteinn Jónsson, efnaverkfræðingur og fyrrverandi forstjóri, er látinn 95 ára að aldri. Hann fæddist 2. október 1928 og lést 6. desember síðastliðinn.

Eftirlifandi eiginkona Aðalsteins er Patricia Ann MacKenzie Jónsson, fædd 7. janúar 1933.

Aðalsteinn – jafnan kallaður Alli í Sjöfn – var forstjóri Efnaverksmiðjunnar Sjafnar á Akureyri í 40 ár, frá 1958 þar til hann settist í helgan stein, sjötugur að aldri árið 1998.

Dóttir Aðalsteins og Arnfríðar Guðjónsdóttur er Eygló Aðalsteinsdóttir f. 1953, eiginmaður hennar er Þórarinn Óðinsson f. 1953.

Börn Aðalsteins og Patriciu eru:

1) Svanhvít MacKenzie Aðalsteinsdóttir f. 1956, eiginmaður hennar er Júlíus Birgir Kristinsson f. 1954.

2) Ívar Aðalsteinsson f. 1957, kona hans er Ingibjörg Rósa Sigurjónsdóttir f. 1973. Fyrri kona Ívars var Kristín Þórarinsdóttir f. 1960.

3) Ásdís Elva Aðalsteinsdóttir f. 1959. Fyrrum eiginmaður hennar er Skeggi G. Þormar f. 1957.

4) Margrét Aðalsteinsdóttir f. 1961, sem gift er Erni Ragnarssyni f. 1959.

5) Auður Aðalsteinsdóttir f. 1961, maður hennar er Friðjón Bjarnason f. 1958.

6) Jón Georg Aðalsteinsson f. 1965, sem kvæntur er Hilmu Sveinsdóttur f. 1966.

Barnabörn Aðalsteins eru 22 og barnabarnabörn 18.

Aðalsteinn ólst upp í Hafnarfirði næst yngstur 12 systkina. Þau eru nú öll látin. Foreldrar hans voru Guðfinna Margrét Einarsdóttir og Jón Jónsson, sem lést þegar Aðalsteinn var aðeins átta ára.

Eftir stúdentspróf frá MR nam hann efnaverkfræði í Skotlandi og þar kynntist Aðalsteinn Pat konu sinni. Elsta dóttir þeirra, Svanhvít, fæddist þar í landi. Fjölskyldan flutti heim til Íslands 1956 og tveimur árum síðar bauð Jakob Frímannsson, kaupfélagsstjóri KEA, Aðalsteini starf forstjóra Sjafnar sem hann gegndi í fjóra áratugi sem fyrr greinir.

Aðalsteinn stundaði fimleika, handknattleik og knattspyrnu með FH á yngri árum og var virkur í starfi KA eftir að hann flutti til Akureyrar. Var til dæmis í stjórn handknattleiksdeildar félagsins um tíma. Aðalsteinn fékk snemma mikinn áhuga á söng og var í Kvæðamannafélagi Hafnarfjarðar sem ungur maður. Eftir að hann flutti til Akureyrar gekk Aðalsteinn til liðs við karlakórinn Geysi þar sem hann söng 1. tenór. Hann var einn fjórmenninganna í Geysis-kvartettinum sem var vinsæll og þótti afbragðs góður.

Útför Aðalsteinn verður frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 28. desember kl. 13.00.