Fara í efni
Fréttir

Ánægjuleg efri ár á Akureyri okkar allra

Eitt af áherslumálum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum er að leggja aukna áherslu á lýðheilsu eldri borgara og að unnið verði áfram í anda aðgerðaráætlunar um málefni eldri borgara sem samþykkt var í desember 2021. Aðgerðaráætlunin var samþykkt eftir tillögu Öldungaráðs Akureyrarbæjar sem óskaði eftir því að unnið yrði að heildstæðri áætlun um málefni eldri borgara. Í kjölfarið var skipaður samráðshópur sem var m.a. ætlað að hafa samráð við Öldungaráð og Félag eldri borgara á Akureyri. Það er því óhætt að segja að áætlunin sé afrakstur samráðs við fulltrúa eldri borgara sem áttu aðkomu að gerð hennar á öllum stigum.

Í fyrsta hluta áætlunarinnar er lögð sérstök áhersla á heilsueflingu, félagsstörf og upplýsingagjöf og er þeim hluta ætlað að taka til eitt ár. Um mikilvægt fyrsta skref áætlunarinnar er að ræða sem leggur grunninn að því sem koma skal. Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að að þau áhersluatriði sem tilgreind eru í fyrsta hluta áætlunarinnar verði lokið innan gildistíma hennar þannig að hægt verði að halda mótun hennar áfram og eftirfylgni.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að áfram verði haft víðtækt samráð við fulltrúa eldri borgara og leitað verði eftir sjónarmiðum þeirra hvað varðar næstu skref aðgerðaráætlunarinnar. Einnig leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að eldri borgurum verði gert kleift að búa eins lengi heima og frekast er unnt er og að öll þjónusta taki mið af því. Þá skiptir máli að efla starfsemi Öldungaráðs og tryggja aðkomu þess að öllum málum er varða málefni eldri borgara.

Aukin virkni og þátttaka eldri borgara í samfélaginu ásamt aukinni heilsueflingu, góðu aðgengi að fjölbreyttu vali á hreyfingu og tómstundum er að mati Sjálfstæðisflokksins lykilatriði varðandi vellíðan eldri borgara. Með auknu framboði tómstunda fyrir eldri borgara má enn fremur draga úr einmanaleika á meðal þeirra og þá er mikilvægt að skapa vettvang fyrir þennan mikilvæga hóp okkar til að koma saman við heilsueflandi tómstundaiðju. Þá skiptir það enn fremur máli að eldri borgarar sem hafa starfsorku og vilja til ríkari þátttöku í samfélaginu fái til þess tækifæri.

Sjálfstæðisflokkurinn mun taka málefni eldri borgara föstum tökum og tryggja að þeir geti notið efri áranna á Akureyri okkar allra.

Lára Halldóra Eiríksdóttir skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í dag.