Fara í efni
Fréttir

Ánægja með rólegt og fjölskylduvænt hverfi

Frá hverfisfundi í Glerárskóla. Mynd: akureyri.is.

Akureyrarbær hefur haldið af stað þar sem frá var horfið síðastliðið vor með hverfafundi í skólum bæjarins. Í gær var haldinn hverfisfundur í Glerárskóla og mættu um 20 manns að því er fram kemur á vef bæjarins þar sem segir að farið hafi fram gott samtal og komið fram gagnlegar ábendingar frá íbúum.

Á hverfafundina mæta bæjarfulltrúar og starfsfólk bæjarins og gefst íbúum kostur á að taka þátt í umræðum og yfirferð í hópum um það hvað er gott við hverfið og hvað megi bæta. 

Meðal þess sem íbúar á fundinum lýstu ánægju sína með í hverfinu er hve rólegt og fjölskylduvænt hverfið er, með góðri þjónustu og nálægð við náttúru. Heilsugæslan, góð íþróttaaðstaða og skólarnir í hverfinu voru einnig á meðal jákvæðra þátta sem nefndir voru. 

Helstu umbótatillögur sem fram komu á fundinum snúast um umferðaröryggi, viðhald leiksvæða, bættan gróður og upplýsingaflæði frá bænum. Þá var einnig rætt um hugmyndir að bættum almenningssamgöngum.

Fram kemur í frétt bæjarins að minni ábendingum hafi þegar verið komið áfram innan stjórnsýslunnar en að stærri mál verði tekin til umfjöllunar í fagráðum bæjarins.

Hverfafundirnir eru opnir öllum íbúum og verður næsti fundur verður haldinn í Lundarskóla á morgun, miðvikudaginn 8. október kl. 17.