Ánægja með friðsælt og fjölskylduvænt hverfi

Í vikunni var haldinn hverfisfundur í Lundarskóla á vegum Akureyrarbæjar, sem hluti af fundaröð sem bæjarfélagið hefur staðið fyrir. Á hverfafundina mæta bæjarfulltrúar og starfsfólk bæjarins og gefst íbúum kostur á að taka þátt í umræðum og yfirferð í hópum um það hvað er gott við hverfið og hvað megi bæta. Á fundinn í Lundarskóla mættu um 30 manns, að því er fram kemur í frétt á vef bæjarins.
Íbúar lýstu mikilli ánægju með nærumhverfi sitt. Hverfið er talið fjölskylduvænt, friðsælt og gróið, með góðu aðgengi að náttúru, þjónustu og íþróttasvæðum. Fólk kann vel að meta stuttar vegalengdir, verslanir og strætó, sem og snyrtilegt umhverfi, góða göngu- og hjólastíga og almennt öryggi í hverfinu.
Þegar rætt var um það sem betur mætti fara, komu meðal annars fram hugmyndir um endurbætur á skólalóð Lundarskóla, að breyta virkni umferðarljósa við Dalsbraut og bætt skipulag vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Viðjulund. Þá voru nefndar tillögur um aukið umferðaröryggi, svo sem með radarmælingar í Skógarlundi, biðskyldumerki í Grenilundi og mögulegt hringtorg við Möl og sand.
Minniháttar ábendingum hefur þegar verið komið áfram til viðeigandi starfsmanna bæjarins. Stærri og kostnaðarsamari mál verða tekin til umfjöllunar í fagráðum og nefndum bæjarins, að því er segir í frétt Akureyrarbæjar.