Fara í efni
Fréttir

Allt að verða tilbúið í Hlíðarfjalli

Ljósmyndir: Óskar Wild Ingólfsson.
Ljósmyndir: Óskar Wild Ingólfsson.

Á morgun frystir á ný hér fyrir norðan, eftir nokkra hlýja daga. Frostið fer að vísu ekki nema upp í fimm stig en í sjö stig á fimmtudaginn. Á föstudag hlýnar á ný með rigningu en um helgina kólnar og spáð er allt að 11 stiga frosti á sunnudaginn. Það kætir án efa margan skíðamanninn, enda verður þá kominn 10. janúar.

Núgildandi reglur um samkomutakmarkanir og sóttvarnir, vegna kórónuveirufaraldursins, renna út 12. janúar og margir vonast til þess að þá verði loksins hægt að opna skíðasvæði landsins. Hér fyrir norðan er spennan sennilega enn meiri en víðast annars staðar vegna þess að nýjasta lyfta skíðasvæðisins er tilbúin eftir prófanir. Hún nær töluvert hærra en Stromplyftan og fólki bjóðast því nýjar leiðir til að skíða niður eftir að hún kemst í gagnið.

Óskar Wild Ingólfsson, skíðagæslumaður í Hlíðarfjalli, tók myndirnar  milli jóla og nýars, í miklu frosti, við efsta hluta nýju lyftunnar. Þessir glæsilegu „ísskúlptúrar“ eru sem sagt hluti hennar.

Stefán Gunnarsson, svæðisstjóri Hlíðarfjalls, faðmar einn af stólunum í nýjustu lyftu skíðasvæðisins!