Fara í efni
Fréttir

Allra síðasta sýningin og veiðiferðin!

Allra síðasta sýningin og veiðiferðin!

Nú fer hver að verða síðastur að skella sér í Borgarbíó! Bíóið hættir nefnilega starfsemi um næstu helgi; síðasta sýning hefst klukkan 21.40 á laugardagskvöldið. Þetta var tilkynnt á Facebook síðu bíósins í dag.

Það telst líklega vel við hæfi að allra síðasta sýning í sögu Borgarbíós verður Allra síðasta veiðiferðin, íslenska grínmyndin sem notið hefur mikilla vinsælda undanfarið.

„Borgarbíó þakkar Akureyringum og Norðlendingum öllum samfylgdina á liðnum áratugum. Bestu þakkir til hins stóra og frábæra hóps starfsfólks sem starfað hefur við kvikmyndahúsið í gegnum tíðina, svo og til samstarfsaðila. Takk fyrir okkur – og takk fyrir ykkur!“ sagði á Facebook síðu bíósins í dag.

Til stendur að rífa húsið og byggja nýtt á sama stað.