Fara í efni
Fréttir

Allir þeir bestu verða með í „Sjally Pally“

Halldór Kristinn Harðarson, til vinstri, og Davíð Oddsson eru fullir tilhlökkunar fyrir Akureyri open í Sjallanum um næstu helgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Vinsældir píluíþróttarinnar hafa aukist gríðarlega á síðustu misserum, ekki síður á Akureyri en annars staðar og píludeild Þórs er raunar orðin sú fjölmennasta á landinu. Um næstu helgi fer fram stærsta pílumót í sögu bæjarins og eitt það fjölmennasta sem haldið hefur hér á landi – Akureyri open, þar sem 160 keppendur eru skráðir til leiks.

Mótið fer fram í Sjallanum og þeir Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs og Halldór Kristinn Harðarson, staðarhaldari í því margfræga húsi, tala í léttum dúr um Sjally Pally með tilvísun í Ally Pally, samkomuhúsið í London þar sem heimsmeistaramótið fer fram árlega.

Fylltist á svipstundu

Skráning í Akureyri open hófst í byrjun janúar og fylltist í mótið á fyrsta klukkutímanum. „Aðsóknin er eiginlega með ólíkindum en þó ekki; þetta er bara gott dæmi um hve píluíþróttin er orðin vinsæl. Fólk kemur alls staðar að af landinu, keppendur sem tóku þátt í úrvalsdeildinni eru meðal annars skráðir til leiks þannig að bestu pílukastarar landsins verða með í Sjallanum,“ Davíð við Akureyri.net.

„Við hjá píludeild Þórs erum gríðarlega spennt að taka á móti öllum keppendunum. Þetta er mót sem hefur verið haldið árlega síðustu ár og í fyrra var metþátttaka þegar 72 mættu til leiks. Þá var mótið haldið í aðstöðunni okkar í Laugargötu en hún er sprungin; við gátum ekki haldið mótið þar núna því við viljum að allir sem hafa áhuga á að taka þátt hafi kost á því,“ segir Davíð.

Frábært að fá Sjallann

„Það er alveg geggjað hve margir eru skráðir í mótið. Við leggjum mikið í þetta, verðmæti vinninga fer yfir 800 þúsund og við finnum mikinn meðbyr frá fyrirtækjum í bænum sem vilja að þetta verði, sem er frábært.“

Davíð Örn segir að þegar ljós hvar hve margir vildu taka þátt á mótinu hefði ekkert annað komið til greina en heyra í Halldór Kristin og kanna hvort það gengi upp að mótið færi fram í Sjallanum. „Að sjálfsögðu var Dóri klár í það og hefur undirbúningur staðið yfir frá því um áramótin. Nú styttist heldur betur í mótið og allt á fullu við skipulagningu svo allt gangi smurt. Til að toppa þetta var ákveðið að hafa úrslitakvöldið á stóra sviðinu í Sjallanum á laugardagskvöldið og byrjar það kl 19:00. Það er ekki oft sem svona stór viðburður er í boði í pílukasti og því er ekki eftir neinu að bíða en að tryggja sér miða á úrslitakvöldið. Við hvetjum svo fólk að kíkja við í Sjallann á föstudagskvöldið og á laugardaginn að fylgjast með keppninni. Það verður öllu tjaldað til að búa til sem mesta stemningu í kringum mótið.“

Með því stærsta

„Ég er virkilega spenntur að takast á við þetta verkefni, skráning í mótið gekk frábærlega og miðasala á úrslitakvöldið á laugardagskvöldið fer virkilega vel af stað,“ segir Halldór Kristin við Akureyri.net. 

„Við ætlum að gera þetta af alvöru; það verða tveir risaskjáir í Sjallanum sem sýna keppendur á stóra sviðinu og svo verðum við með langborð á dansgólfinu fyrir fólk til að sitja og fylgjast með úrslitakvöldinu. Fyrir þá sem komast ekki á úrslitakvöldið þá verður mótinu streymt. Samstarfið með píludeild Þórs hefur verið frábært og erum við sammála um að þetta kvöld verði með því stærra í íslensku pílukasti frá upphafi.“

Að móti loknu verður sveitaball í Sjallanum með Færibandinu. „Síðustu ár hefur verið uppselt á ballið og ég á ekki von á öðru þetta árið,“ segir Halldór.