Fara í efni
Fréttir

Allir geti blómstrað á eigin forsendum hvar sem er á landinu

Páll Ingvarsson, faðir Maríu Pálsdóttur, myndar dóttur sína og Guðna Th. Jóhannesson, forseta Ísland…
Páll Ingvarsson, faðir Maríu Pálsdóttur, myndar dóttur sína og Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands við lok heimsóknar hans á Hælið í Kristnesi - seturs um sögu berkla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var í óopinberri heimsókn á Akureyri um helgina. Ástæða ferðarinnar var boð Leikfélags Akureyrar á frumsýningu Skugga Sveins á laugardagskvöldið, en forsetinn notaði tækifærið og kom víðar við.

„Mig langaði til þess að sýna í verki að við erum vonandi á leið út úr þessum faraldri sem hefur sett svo mikið mark á okkar samfélag í tvö ár. Þegar ég fékk þetta góða boð að koma á frumsýningu á Skugga Sveini leiddi ég þess vegna hugann að því að gaman væri að staldra aðeins við,“ sagði Guðni í samtali við Akureyri.net í gær.

„Ég hef átt fundi með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Eyjólfi Guðmundssyni háskólarektor, fór í messu hjá séra Svavari Alfreð Jónssyni og ég fór í sund í morgun, þar sem vandamál heimsins voru leyst með pottverjum,“ sagði forsetinn, þegar leiðin lá í Kristnes til þess að skoða Hælið – setur um sögu berklanna. Þar tók eigandi setursins, María Pálsdóttir, á móti Guðna en þau höfðu einmitt hist kvöldið áður, því María er einn leikaranna í Skugga Sveini.

Staða og framtíðarhorfur

Forsetinn svarar játandi þegar spurt hvort fundir í ferðum sem þessari séu ekki óformlegt kurteisisspjall.

„Jú, þetta eru bara vinafundir, ég nýt þess að þekkja þetta fólk frá fornu fari og við ræddum á óformlegum nótum um stöðu Akureyrar og framtíðarhorfur og þau tækifæri sem hér eru. Mér finnst einmitt brýnt á þeim tímamótum sem við stöndum væntanlega á – maður vill samt alltaf setja fyrirvara – þegar erum að hverfa úr þessu kófi, að við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið og ferðumst sem víðast um landið, hittum mann og annan og njótum alls þess sem landið hefur upp á að bjóða,“ sagði Guðni. „Á leiðinni norður kom ég við á Stóru-Ökrum í Skagafirði, þar sem gaman var að spjalla við húsráðendur. Við ræddum einmitt, eins og ég gerði líka hér á Akureyri, um hvað þarf að vera til staðar í samfélagi; við þurfum grunnstoðir, atvinnu fyrir fólk og fjölbreytni í þeim efnum, heilbrigðisþjónustu, öflugt menntakerfi og samgöngur; fólk þarf að geta notið allrar grunnþjónustu sem í nærumhverfi, en svo þurfum við líka hitt; afþreyingu og tómstundir,“ sagði forsetinn.

Lausnir sem duga í sólarhring!

Guðni fer reglulega í sund og segir ætíð gaman að ræða málin í heita pottinum. Hvað skyldi hafa brunnið helst á pottverjum í Sundlaug Akureyrar á laugardagsmorgni?

„Það voru viðsjár í Úkraínu og væntanlegar bæjar- og sveitarstjórnarkosningar í landinu og allt þar á milli, íþróttir og hvaðeina. Það er eiginlega bæði kostur og galli við þær lausnir sem finnast í heitu pottum landsins að þær duga bara í sólarhring, það þarf alltaf að mæta aftur daginn eftir til að leysa málin á ný!“ segir Guðni og hefur gaman af.

„Ég hef lengi haldið því fram, og stend við það hvar sem er og hvenær sem er, að einn mesti kostur við íslenskt samfélag – og eru þeir þó margir – eru sundlaugarnar. Það sem ég sakna mest þegar ég hef búið í útlöndum er að komast ekki í sund og í pottinn. Þetta eru okkar félagsmiðstöðvar. Ég sé það á Álftanesi þegar ég kem þar á morgnana að eldri borgarar fara í heilsurækt hjá Janusi Guðlaugssyni og hans fólki , þarna hittist fólk og bregður sér jafnvel í sund líka; þetta er svo gott upphaf á deginum fyrir fólk sem hefur unnið langan vinnudag og er nú komið á annan stað á sínu æviskeiði, að fara út og vera meðal fólks, og hreyfa sig aðeins. Við þurfum einmitt að leggja aukna áherslu á lýðheilsu, sem helst svo í hendur við geðheilsu.“

Alúð, væntumþykja og virðing

„Mig hefur lengi langað að kynna mér safnið og sýninguna um berklana,“ sagði Guðni um Hælið í Kristnesi, og óhætt er að segja að forsetinn hafi hrifist af því sem María sýndi honum ásamt foreldrum sínum og eiginmanni.

„Þetta er alveg mögnuð sýning, gerð af mikilli alúð og væntumþykju og virðingu fyrir viðfangsefninu, sagan lifnar þarna við í hverju herbergi og má vera okkur áminning um mikilvægi vísinda og rannsókna og þekkingar í baráttu við illvíga sjúkdóma, það var þannig sem okkur tókst að vinna bug á berklunum með framförum í heimi læknavísindanna,“ sagði forsetinn eftir heimsóknina í Kristnes. „Við þurftum að sinna sjúklingum ár eftir ár og áratug eftir áratug. Berklarnir voru ein mesta vá á Íslandi fyrri hluta síðustu aldar og má vera okkur áminning um það hvað við njótum mikilla gæða hér á landi þrátt fyrir allt sem á hefur dunið síðustu ár.“

Guðni tók líka fram hve gaman hann hafði af Skugga Sveini. „Það var mjög skemmtileg sýning og það fór ekki á milli mála að leikhúsgestir voru mjög ánægðir með það hvernig til tókst.“

Allir geti blómstrað

Guðni ræddi um stöðu og framtíðarhorfur í ferð sinni, eins og að framan greinir.

„Núna á 21. öldinni verða breytingar og framfarir sífellt hraðari með tækninýjungum og öllu sem þeim fylgir og ég held við séum að horfa til þess að fólk geti hugsað sér að búa mun víðar en áður, störf án staðsetningar breyta svo miklu,“ sagði forsetinn og nefndi eitt lítið dæmi: „innanhússarkitekt getur búið í þorpi hvar sem er á landinu en unnið fyrir viðskiptivini í Tókýó, New York og Singapúr.“

Mikil tækifæri eru fyrir hendi á Akureyri og nágrenni hvað þetta varðar og það finnst Guðna dýrmætt.

„Ég held að okkur Íslendingum muni vegna best ef við nýtum öll landsins gæði skynsamlega og horfum til þess að fólk geti gert sér samastað þar sem það kýs, nánast hvar sem er á landinu, því að sumum líður best í margmenninu en aðrir vilja njóta sín í hinum dreifðari byggðum og við eigum að búa svo um hnútana að við öll getum blómstrað á okkar eigin forsendum hvar sem er á landinu.“

Megi betra liðið vinna ...

Heimsókn Guðna til Akureyrar lauk með því að hann fylgdist með lærisveinum Patreks bróður síns í Stjörnunni leika við KA á Íslandsmótinu í handbolta. „Ég segi bara megi betra liðið vinna,“ segir forsetinn, alinn upp í Garðabæ, á sinn diplómatíska hátt áður en leikurinn hefst! „Ég sit í miðri stúkunni og sé hvernig vindar blása.“

Stjarnan varð að játa sig sigraða eftir mikinn darraðardans en forsetinn lék á als oddi og Patrekur, sem lék á árum áður um tíma með KA, tók úrslitunum með jafnaðargeði eins og hans er von og vísa.

Guðni hafði orð á mikilvægi fjölbreytts mannlífs. „Mér finnst ágætis vitnisburður um það að í svona stuttri ferð hef ég náð að fara í leikhúsið, á sýningu og núna á íþróttaviðburð; þetta þarf allt að vera til staðar í öflugu samfélagi, eins og ég sagði við þig áðan; við þurfum meginstoðirnar, atvinnu, menntakerfi, heilbrigðisþjónustu og samgöngur, en við þurfum líka að gera okkur glaðan dag eftir vinnu, það skiptir allt eins miklu máli í öflugu byggðarlagi eins og Akureyrarbær er,“ sagði hann.

„Ég vil þakka góðar móttökur hér, gestrisni og góðvild, og ég held að Akureyringar, Eyfirðingar og aðrir Norðlendingar geti horft björtum augum fram á veg.“