Fara í efni
Fréttir

Allir dagar verði Dagar íslensku

Sverrir Páll Erlendsson, sem kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri í áratugi, veltir fyrir sér stöðu tungumálsins í aðsendri grein á Akureyri.net í dag. Tilefnið er Dagur íslenskrar tungu í vikunni.

Sverrir Páll spyr: „Af hverju er hann bara einn? Eigum við ekki að leggjast á árar og fjölga þessum dögum? Við getum byrjað á því að hafa Dag íslenskunnar einu sinni í hverjum mánuði og þegar við höfum vanist því getum við haft þetta hálfsmánaðarlega og svo vikulega og endað á því að allir dagar verði Dagar íslensku.“

Hann segir málhæfni unglinga í framhaldsskólum hefur tekið gríðarlega miklum breytingum síðustu hálfa öld. „Þegar leið nær aldamótum fór að bera á breytingum, hann fór heldur að þyngjast róðurinn hjá sumum nemendum ef þeir voru að lesa fornsögurnar eða heilar skáldsögur eins og Sjálfstætt fólk. Ég man eftir því skömmu eftir aldamótin að hafa verið að lesa þá góðu sögu með næstum tvitugum nemendum í hörkusterkri eðlisfræðideild. Þar á meðal voru nokkrir sem komust ekkert áfram í yfirferðinni og ég settist með þeim, sagðist ekki skilja að þeir, sem væru búnir að vera fjórtán ár í skóla og lesa einhver kynstur af fræðibókum gætu ekki aulast yfir eina tiltölulega einfalda íslenska skáldsögu. Þeir sögðu mér þá, sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei á allri skólagöngunni lesið neitt annað en námsefnið, aldrei lesið unglingabækur, reyfara, skáldsögur. Aldrei farið á bókasafn til að finna eitthvað sem þá langaði til að lesa, þá langaði bara aldrei til þess.“

Grein Sverris Páls má lesa hér