Fara í efni
Fréttir

Alfreð, við stöndum þétt að baki þér!

Joachim Löw, þjálf­ari þýska karla­landsliðsins í knatt­spyrnu, fordæmir harðlega kynþáttafordóma og hótanir í garð Alfreðs Gíslasonar, landsliðsþjálfara Þjóðverja í handbolta, að því er íþróttablaðið Kicker greinir frá í hádeginu. Löw sendi Al­freð kveðju á Twitter í morgun í kjölfar þess að Al­freð birti í gær hót­un­ar­bréf sem hann fékk í pósti og Akureyri.net sagði frá.

„Þú ert frá­bær landsliðsþjálf­ari og við erum stolt af þér og liðinu. Í Þýskalandi verðum við að standa fyr­ir sam­stöðu og vernd, ekki fyrir aðgreiningu. Ég vona að sá sem sendi bréfið finn­ist og verði lát­inn sæta ábyrgð,“ sagði Löw. „Ég á erfitt að ímynda mér hvað fær fólk til þess að senda annarri manneskju hótun sem þessa. Al­freð, ég og fjölmargir aðrir stöndum þétt að baki þér!“ sagði hann.

Fjölmargir í handboltaheiminum sendu Alfreð ámóta skilaboð á Twitter í gær, eftir að hann birti bréfið, og í morgun tók landsliðsþjálfari þýska kvennalandsliðsins í fótbolta, Martina Voss-Tecklenburg, í sama streng og Löw að sögn Kicker. Hún kallar eftir „fullri samstöðu“ með Alfreð eftir þessa huglausu árás, eins og hún tekur til orða. Hún kveðst bera virðingu fyrir Alfreð fyrir að sýna það hugrekki að opinbera hótunina, og kveðst þess fullviss að mikill meirihluti fólks tali fyrir sanngirni, samheldni og umburðarlyndi. 

Smelltu hér til að lesa fréttina frá því í gær um hótunina.