Fara í efni
Fréttir

Akureyringar verða 20 þúsund á þessu ári

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringar verða tuttugu þúsund talsins á þessu ári. Íbúafjöldi Akureyrarbæjar að íbúum Hríseyjar og Grímseyjar meðtöldum munu ná því marki á fyrri hluta ársins en að óbreyttu verða íbúar Akureyrar sem slíkrar tuttugu þúsund fyrir árslok. Þetta segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri

Þóroddur bendir á að þar með sé þó ekki öll sagan sögð „því mikil fjölgun hefur verið í nærliggjandi byggðakjörnum á undanförnum árum og samanlagður mannfjöldi þeirra nálgast nú eitt þúsund íbúa markið. Íbúar hins samfellda borgarsvæðis Akureyrar eru því um 21 þúsund talsins,“ segir Þóroddur við Akureyri.net.

Þóroddur segir þetta vera merkileg tímamót en hér sé fremur um að ræða niðurstöðu langrar og nokkuð samfelldrar þróunar en einhvern sérstakan viðsnúning í íbúaþróun.

Fjölgar um 200 á ári

Samfelldar tölur Hagstofunnar ná aftur til 1880 en það ár töldust Akureyringar vera 545 talsins. Íbúafjöldinn náði þúsund íbúa markinu árið 1899 en á 20. öldinni i fjölgaði Akureyringum að meðaltali um 140 manns á ári. Fjölgunin hefur verið ívið meiri það sem af er 21. öldinni eða tæplega 200 íbúar á ári að meðaltali. Á síðasta ári var íbúafjölgun á Akureyri því rétt ofan við meðaltal þessarar aldar.

Þóroddur segir hins vegar vekja athygli hversu stóran hlut nálægir og aðliggjandi byggðakjarnar eigi í vexti þéttbýlisins. Samanlagður íbúafjöldi Brúnahlíðar, Hrafnagils, Lónsbakka, Kristness og Svalbarðseyrar er nú um þúsund manns sem er svipað Akureyri í upphafi 20. aldarinnar. Á síðasta ári fjölgaði íbúum þessara kjarna hins vegar um 12,5% samanborið við 1,3% fjölgun á Akureyri. Samanlögð fólksfjölgun á svæðinu var því 365 manns en þriðjungur þeirrar fjölgunar átti sér stað í smærri byggðakjörnum svæðisins.

„Þetta er ekkert fyrir Akureyringa til að hafa áhyggjur af“, segir Þóroddur, „þvert á móti er eðlilegt að þetta samfellda borgarsvæði Akureyrar vaxi hraðast á jöðrunum og fjölbreyttir búsetukostir eru einmitt ein forsenda fólksfjölgunar á svæðinu öllu. Hins vegar er þetta auðvitað eitt samfellt búsetu- og þjónustusvæði í hröðum vexti og flókin sveitarfélagamörk geta orðið svolítið til trafala eftir því sem nærliggjandi byggðakjarnar verða stærri hluti heildarinnar.“