Fara í efni
Fréttir

Akureyringar sérlega ánægðir og jákvæðir

Hlíðarfjall er mikill unaðsreitur að mati margra - ekki síst á fallegum, sólríkum degi. Ljósmynd: Sk…
Hlíðarfjall er mikill unaðsreitur að mati margra - ekki síst á fallegum, sólríkum degi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íbúar á Akureyri eru einna ánægðastir á landinu með búsetuskilyrði og meðal þeirra jákvæðustu í viðhorfi til síns sveitarfélags, samkvæmt nýrri könnun á vegum Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna. Helstu niðurstöður eru teknar saman og birtar á heimsíðu Akureyrarbæjar.

Akureyringar eru ánægðastir allra í könnuninni með almenningssamgöngur, framhaldsskóla, háskóla, framboð á leiguíbúðum og íbúðarhúsnæði til kaups, menningarlíf, sorpmál, umhverfismál og vegakerfi.

Íbúar Akureyrarbæjar og við Eyjafjörð komu, ásamt höfuðborgarbúum, best út þegar spurt var um tækifæri til afþreyingar. Þeir eru að auki meðal þeirra jákvæðustu í samanburði við íbúa annarra svæða hvað varðar vöruverð og vöru- og þjónustuúrval, unglingastarf, nettengingar, mannlíf, tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar, framfærslukostnað, farsímasamband og fjölbreytni atvinnulífs.

Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um voru íbúar Akureyrarbæjar í 2. sæti, rétt á eftir Vestmannaeyingum, og aðrir íbúar við Eyjafjörð voru í 3. sæti.

Skoðanakönnunin var gerð í september og október 2020 og var send út á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri annaðist gerð úrtaks. 

Niðurstöðurnar byggja á svörum frá yfir 10 þúsund þátttakendum, þar af 762 frá íbúum Akureyrabæjar, og er þetta í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til sveitarfélags nær til allra svæða landsins.