Fara í efni
Fréttir

Akureyringar almennt ánægðir með bæinn

Nær allir íbúar Akureyrarbæjar – 9 af hverjum 10 – eru „ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á“, samkvæmt niðurstöðum nýrrar þjónustukönnunar Gallup. Yfirleitt eykst ánægja með þjónustu bæjarins eða stendur í stað milli ára, en í þremur flokkum hefur viðhorf til þjónustunnar aldrei mælst jákvæðara.

Að þessu sinni spurði Gallup 800 Akureyringa og 428 svöruðu – svarhlutfallið var því 54%.

Gallup kannar árlega viðhorf íbúa gagnvart þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og voru 20 sveitarfélög mæld að þessu sinni, Akureyrarbær þar á meðal.

Niðurstöður benda til þess að Akureyringar séu einna ánægðastir með umhverfismál, 84% svarenda sögðust ánægðir með þjónustu í tengslum við sorphirðu og 82% eru ánægðir með gæði umhverfis, en í þeim flokki mælist jákvæður og marktækur munur frá árinu á undan. Einnig mælist jákvæður og marktækur munur á ánægju með skipulagsmál sveitarfélagsins.

79% íbúa eru frekar eða mjög ánægðir með þjónustu Akureyrarbæjar heilt yfir og sama gildir um aðstöðu til íþróttaiðkunar. Ánægja með gæði umhverfis, þjónustu við barnafjölskyldur og þjónustu við fatlað fólk hefur ekki mælst hærri frá því Galllup hóf að mæla þessa þætti. Þá er ánægja með þjónustu Akureyrarbæjar heilt yfir og þjónustu í tengslum við sorphirðu á pari við hæstu gildi frá upphafi. 

Meðal helstu niðurstaðna eru þessar. Akureyringar eru ...

  • ... ánægðari en íbúar annarra sveitarfélaga að meðaltali með „sveitarfélagið sem stað til að búa á“.
  • ... ánægðari en meðaltal aðspurðra með sorphirðu í sveitarfélaginu.
  • ... ánægðari með gæði umhverfis í nágrenni við heimili.
  • ... óánægðari en aðrir með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu.
  • ... ánægðari en aðrir með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið, „bæði út frá reynslu þinni og áliti“.
  • ... óánægðari með þjónustu leikskóla en aðrir.
  • ... jafn ánægðir og aðrir með þjónustu grunnskóla.
  • ... ánægðari en aðrir með þjónustu við fatlað fólk.
  • ... ánægðari en aðrir með hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum.
  • ... óánægðari en aðrir með þjónustu við barnafjölskyldur.
  • ... jafn ánægðir og fólk að meðaltali í hinum sveitarfélögunum með þjónustu við eldri borgara.

Spurt er um ýmislegt fleira, t.d. viðbrögð bæjarins við Covid faraldrinum, um fjárhagsstöðu heimila og starfsöryggi.

Hægt er að skoða allar niðurstöður könnunarinnar með því að smella HÉR