Fara í efni
Fréttir

Akureyri getur leikið lykilhlutverk

Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Bæjaryfirvöld á Akureyri telja sveitarfélagið geta leikið lykilhlutverk á ýmsum sviðum í samstarfi milli Íslands og Grænlands, enda sé bærinn miðstöð málefna Norðurslóða á Íslandi, þar séu allar stofnanir á sviði Norðurslóða sem starfandi séu á Íslandi og allir nauðsynlegir innviðir til staðar í sveitarfélaginu.

Rætt var um nýútkomna skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á fundi bæjarstjórnar í gær. Skýrslan ber yfirskriftina Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, hélt ítarlega framsögu, fór yfir 10 tillögur um stefnumörkun sem settar eru fram í skýrslunni og benti á hugmyndir bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar er varðar hlutverk sveitarfélagsins. Fram kom í gær að fulltrúar Akureyrar hafi þegar fundað með ráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, kynnt hugmyndir sínar og ráðherra hvatt Akureyringa til að sýna frumkvæði í þessum málum.

Hér má sjá 10 tillögur Grænlandsnefndarinnar um stefnumörkun, og hugmyndir bæjaryfirvalda á Akureyri.

1. Tvíhliða viðskiptasamningur

Grænlandsnefnd leggur til að utanríkisráðherra beiti sér fyrir gerð tvíhliða viðskiptasamnings, með það að markmiði að auka viðskipti milli landanna og lækka verð á daglegum nauðsynjum til grænlenskra neytenda. Þess megi vænta að slíkur samningur, ásamt vikulegum siglingum milli Nuuk og Reykjavíkur sem hefjast á þessu ári, greiði íslenskum lágvörukeðjum leið inn á grænlenska markaðinn.

Tillaga Akureyrarbæjar:

   • Útskipunarhöfn verði í Eyjafirði.

 

2. Frístundaheimili í Tasiilaq

Nefndir leggur til að ríkisstjórn Íslands, í samráði við Barnaheill og Sermersooq-sveitarfélagið, færi Tasiilaq á Austur-Grænlandi peningagjöf til að festa kaup á húsnæði undir frístundaheimili ásamt andvirði launa starfsmanns í þrjú ár. Með því sýni Íslendingar í verki vináttu sína við austurgrænlenska samfélagið sem er þjakað af félagslegum vandamálum, svo sem útbreiddum kynferðisbrotum gegn börnum og hæstu tíðni sjálfsvíga ungs fólks í heiminum.

Tillögur Akureyrarbæjar:

 • Stofnað verði til samstarfs Akureyrarbæjar og Grænlensku landsstjórnarinnar um þjónustu við einstök sveitarfélög. Fjarþjónusta og mögulega sérfræðiþjónusta í afskekktum héruðum og þorpum á Grænlandi.
 • Komið verði á þjónustusamningi við Aflið og Kvennaathvarfið á Akureyri um þjónustu við þorp á Austur Grænlandi.
 • Gerður verði samstarfssamningur um stuðning Akureyrarbæjar við gerð jafnréttisáætlana í sveitarfélögum á Grænlandi.
 • Akureyrarbær leiði samstarf þjóðanna um innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu hjá grænlenskum sveitarfélögum. Jafnhliða yrði stuðningur við stafræna þróun á Grænlandi hluti þessa samstarfs og stuðningur við Grænlendinga um „ljóstengt Grænland“.

 

3. Stuðningur við berskjaldaða

Rauði kross Íslands verði styrktur til að ráðast í fjórþætt verkefni sem beinast að berskjölduðum og miða að því að efla staðbundna getu sjálfboðaliða. Áhersla er lögð á geðheilbrigði og sálræna áfallahjálp, meðal annars vegna tíðra sjálfsvíga; þjálfun og styrkingu ungra sjálfboðaliða til forvarna meðal jafnaldra; að rjúfa einangrun aldraðra; og skipulag neyðarvarna vegna hamfara og stærri slysa. Sérstök áhersla er lögð á Austur-Grænland þar sem markmiðið er að draga úr tíðni sjálfsvíga og hvers kyns ofbeldis gegn börnum. Verkefnin verði unnin í samstarfi við grænlenska Rauða krossinn.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Rauði krossinn á Akureyri haldi utan um verkefnið.

 

4. Uppbygging fjarnáms

Utanríkisráðherra og menntamálaráðherra gangi frá samkomulagi sem tryggi fjárhagslegan grundvöll fyrir þriggja ára tilraunaverkefni um innleiðingu fjarnáms við valdar greinar við háskólann í Nuuk, Ilisimatusarfik, í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Í framhaldi bjóði stjórnvöld fram íslenska reynslu um þróun fjarnáms á verkmennta- og framhaldsskólastigi sem miðlað yrði undir forystu Háskólans á Akureyri. Löndin leiti í sameiningu til norrænna og evrópskra sjóða um að taka þátt í að fjármagna innleiðingu fjarnáms í Grænlandi í því augnamiði að lyfta menntastigi landsins. Það er nú hið lægsta í Evrópu.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Háskólinn á Akureyri, VMA og Menntaskólinn á Tröllaskaga sjái um þetta samstaf.

 

5. Nýr alhliða fiskveiðisamningur

Gerður verði nýr alhliða fiskveiðisamningur sem nái til veiða allra deilistofna, einnig djúpkarfa. Kveðið verði á um stóraukið samstarf, meðal annars um sameiginlegar þorskrannsóknir við Austur-Grænland. Gert verði kleift að hefja tímabundin starfsmannaskipti milli stofnana; ungir grænlenskir vísindamenn verði styrktir til að vinna doktorsverkefni við Hafrannsóknastofnun og komið á samstarfi fyrirtækja í sjávarútvegi, meðal annars um myndun sjávarútvegsklasa og nám í fisktækni. Reglulegt tvíhliða samráð stofnana með gagnkvæmum vinnuheimsóknum verði formgert.

Tillögur Akureyrarbæjar:

 • Sjávarútvegsdeild HA leiki lykilhlutverk við háskólamenntun starfsfólks í sjávarútvegi.
 • Matvælaklasi sem unnið er að því að stofna í Eyjafirði tengist til Grænlands.

 

6. Leit og björgun

Utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra bjóði fram reynslu Íslendinga á sviði leitar og björgunar til að koma á fót sjálfboðaliðasamtökum í Grænlandi sem byggja á reynslu og hugmyndafræði Landsbjargar.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Björgunarsveitin Súlur á Akureyri og Slökkvilið Akureyrar gerðu samning við grænlensku landsstjórnina um þjálfun vettvangsliða og björgunarsveitarfólks.

 

7. Smávirkjanir á Austur-Grænlandi

Utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra komi á samstarfi við grænlensk stjórnvöld um smávirkjanir á Austur-Grænlandi sem miðar að því að skipta út olíu sem orkugjafa við húshitun og rafmagnsframleiðslu. Lagt er til að Austur-Grænland verði tekið inn í smávirkjanaáætlun Orkustofnunar. Samhliða verði fundið fjármagn til að ráðast í gerð einstakra verkefna á grundvelli sjálfbærra rekstrarforsendna. Stefnt yrði að því að austurgrænlenska líkanið verði fyrirmynd að orkuskiptum við öll grænlensk þorp þar sem vatnsafl er fyrir hendi.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Fallorka (Norðurorka) bjóði fram sérfræðiþekkingu og mögulega fjárfestingu.

 

8. Alþjóðleg hugveita

Utanríkisráðherra, að höfðu samráði við grænlensk stjórnvöld, leiti eftir því við Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle að sett verði á fót alþjóðleg hugveita um „Grænland og Norðurslóðir – Greenland in the Arctic“, til dæmis í samvinnu við Wilson Institute í Washington DC og Norðurslóðasetur Harvard-háskóla. Markmiðið er að efla umræðu um Grænland í alþjóðlega fræðasamfélaginu og um leið alþjóðleg tengsl Grænlands og Íslands.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Systurskrifstofa yrði á Akureyri.

 

9. Samningur á heilbrigðissviði

Utanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir auknu samstarfi Grænlands og Íslands í heilbrigðisgeiranum. Kortlagt verði á hvaða sviðum íslenska heilbrigðiskerfið getur þjónað því grænlenska, með áherslu á hjartaþræðingar, heilaþræðingar, sérþjálfun hjúkrunarfólks og valbundnar aðgerðir eins og liðskipti og frjósemisaðgerðir. Jafnframt verði komið á samstarfi Geislavarna ríkisins og grænlenskra stjórnvalda um innleiðingu staðla og eftirlits með geislavörnum og geislalindum. Grænlenskur hjúkrunarfræðingur og/eða sjúkraliði verði ráðnir til Landspítalans og Sjúkrahúss Akureyrar til að auðvelda móttöku bráðasjúklinga af austurströnd Grænlands. Í kjölfarið verði samstarfssamningur landanna á heilbrigðissviði uppfærður með tilliti til ofangreindra verkefna.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Til viðbótar verði aukið samstarf í þjónustu við aldraða, barnavernd, félagsþjónustu, velferðartækni o.s.frv.
 • Skotið verði traustari stoðum undir sjúkraflug frá Akureyri og heilsugæslu á A-Grænlandi. Akureyrarbær getur með samningum veitt mikla aðstoð á þessu sviði.

 

10. Norðurslóðasetur

Ríkisstjórnin skipi starfshóp sem undirbúi Norðurslóðasetur í Reykjavík sem verði framtíðarheimili Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle. Aðstaða verði fyrir erlenda gistivísindamenn og doktorsnema og safn um Norðurslóðir. Þá verði kappkostað að efla tengsl við Grænland. Leitað verði stuðnings þeirra fjölmörgu erlendu stofnana, samtaka og sjóða sem Hringborðinu tengjast til að styrkja fjármálalegan grundvöll verkefnisins. Markmiðið er að tryggja til framtíðar þann vettvang á Íslandi sem mestum árangri hefur náð í að vekja athygli á Norðurslóðum og Grænlandi í gjörbreyttu umhverfi hraðra loftslagsbreytinga.

Tillaga Akureyrarbæjar:

 • Akureyrarbær leggur til húsnæði undir slíkt setur og kemur þannig að stofnun þess á Akureyri.