Fara í efni
Fréttir

Akureyrarklíníkin að komast á rekspöl

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkrahúsinu á Akureyri, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands, að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME sjúkdóminn. 

Hér er um að ræða verkefni sem gengið hefur undir heitinu Akureyrarklíníkin. Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, kom inn á þetta mál þegar hún sleit málþingi um Akureyrarveikina sem fram fór á Amtsbókasafninu laugardaginn 6. maí. Hún sagði þá að hún vonaðist eftir að að ári gæti hún kynnt starfsemi Akureyrarklíníkurinnar, þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME sjúkdóminn. Til þess að svo gæti orðið væri óskað eftir fjármagni.

Þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME sjúkdóminn | Sjúkrahúsið á Akureyri (island.is)

Nú virðist þetta mál vera komið á rekspöl því í frétt á vef stjórnarráðsins í dag kemur fram að ráðherra hafi nú falið heilbrigðisstofnunum hér á Akureyri að koma þessari miðstöð á fót.

Í frétt heilbrigðisráðuneytisins segir meðal annars:

Áformuð stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME sjúkdóminn hefur fengið vinnuheitið Akureyrarklíníkin. Liður í stofnun hennar er að bæta skilning á ME og skyldum sjúkdómum og stuðla að bættri þjónustu við sjúklinga. M.a. er horft til þess að þangað geti heimilislæknar leitað með tilfelli sem þarfnast staðfestingar á greiningu og sjúklingar fengið ráðgjöf. Klíníkin yrði þannig samhæfandi aðili um þjónustu við ME sjúklinga á landsvísu, auk þess að vinna að skráningu sjúkdómsins og stuðla að rannsóknum.

Stjórnarráðið | Stofnuð verði þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð um ME-sjúkdóminn (stjornarradid.is)