Fara í efni
Fréttir

Akureyrarbær greiðir laun í „kvennaverkfalli“

Stofnanir og fyrirtæki Akureyrarbæjar munu greiða þeim konum og kvárum laun sem ekki mæta til vinnu á Kvennafrídaginn, þriðjudaginn 24. október, að því er Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri tjáði Akureyri.net í dag.

Boðað er til kvennaverkfalls um allt land á þriðjudaginn undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“ Fjöldi samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks standa að verkfallinu.

Í hvatningarbréfi frá aðstandendum eru konur og kynsegin fólk „hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.“

Á vef Akureyrarbæjar segir að viðbúið sé að ákveðin þjónusta á vegum sveitarfélagsins verði skert eða þyngri í vöfum þennan dag.

Þar segir einnig:

  • Akureyrarbær styður að sjálfsögðu jafnréttisbaráttu kvenna og kynsegin fólks og tekur undir þau meginsjónarmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf skuli metin að verðleikum og til jafns við störf karla.
  • Sveitarfélagið mun því leita allra leiða til að konur og kvár geti lagt niður störf og tekið þátt í skipulagðri dagskrá en á Akureyri verður útifundur á Ráðhústorgi kl. 11 árdegis.
  • Konur og kvár eru hvött til að mæta á fundinn og sýna samstöðu í baráttu fyrir launajafnfrétti kynjanna.
  • Hluti af starfsemi sveitarfélaga er með þeim hætti að ekki er mögulegt að leggja hana alfarið niður og kappkostað verður að tryggja þjónustu á öllum sviðum svo velferð, öryggi og heilsu fólks verði á engan hátt stofnað í hættu.
  • Þennan dag verður haustfrí í grunnskólum bæjarins en opið verður í leikskólum.
  • Með samhentu átaki getum við stuðlað að því að sem flestar konur og kvár geti tekið þátt í kvennaverkfallinu og því er þeim tilmælum beint til foreldra að hafa börn sín heima eða með sér í vinnuna ef það er hægt með góðu móti. Það auðveldar þeim konum og kvárum sem starfa í leikskólum að taka þátt í dagskrá dagsins.
  • Gjald fyrir leikskólavist verður endurgreitt fyrir þennan dag til þeirra sem ekki nýta þjónustuna.
  • Sundlaugar Akureyrarbæjar verða opnar en þó má gera ráð fyrir skertri þjónustu.

„Umfram allt, sýnum samstöðu með konum og kvárum og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að sem flest geti tekið þátt í deginum,“ segir á vef sveitarfélagsins.

Langlífur og útbreiddur faraldur

„Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið,“ segir í áðurnefndu hvatningarbréfi frá aðstandendum Kvennafrídagsins. 

„Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni og teljum að jafnrétti komi með tímanum — jafnvel þó vitað sé að það muni a.m.k. taka heila ævi. Því blásum við, á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og hreyfinga launafólks til kvennaverkfalls á ný. Við leggjum niður störf til að sýna að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Þannig ætlum við að breyta samfélaginu og knýja fram jafnrétti strax“

Kvennafrídagurinn