Fara í efni
Fréttir

Áhugi á Strandgötu 17 þrátt fyrir kvaðir

Strandgata 17 sem er í eigu Akureyrarbæjar er til sölu en sölunni fylgja nokkrir skilmálar. Óskað er…
Strandgata 17 sem er í eigu Akureyrarbæjar er til sölu en sölunni fylgja nokkrir skilmálar. Óskað er eftir tilboðum í eignina.

Húseignin Strandgata 17 sem er í eigu Akureyrarbæjar var nýlega auglýst til sölu. Athygli vekur hversu miklar kvaðir eru á sölunni en þrátt fyrir það hafa nokkrir sýnt eigninni áhuga.

„Jú, það hafa þó nokkrir aðilar sýnt eigninni áhuga og ég vænti þess að það skýrist eitthvað í desember,“ segir Björn Guðmundson sölustjóri og fasteignasali hjá fasteignasölunni Byggð sem er með eignina á söluskrá sinni. Strandgata 17 er einbýlishús á tveimur hæðum sem stendur á horni Strandgötu og Glerárgötu, gegnt menningarhúsinu Hofi. Eignin er seld með þeim kvöðum að hluti hússins skuli rifinn innan árs og það byggt í stíl við upprunalegt hús sem stóð á lóðinni fyrir 1908. Gluggar skulu færðir til upprunalegs horfs og klæðning utanhúss skal vera liggjandi timburpanell. Rífa þarf tvær viðbyggingar sem eru við húsið, annars vegar til vesturs til að rýma fyrir gönguleið meðfram Glerárgötu og hins vegar viðbyggingu til norðurs. Húsið sem nú er á lóðinni er 198 fm að stærð en eftir breytingar yrði það 120-30 fm.

Ekki óalgengt að selja eignir með skilmálum

„Það er alls ekki óalgengt að eignir séu seldar með ákveðnum skilmálum,“ segir Björn spurður að því hvort þetta sé ekki frekar óvenjuleg fasteignaauglýsing með svona miklum kvöðum . „Í Reykjavík hefur maður oft séð skilmála þess efnis að framhlið húsa eigi að standa en byggja megi upp í bakgarðinum. En vissulega er það rétt að við erum oftar að selja blokkaríbúðir í Hrísalundi heldur en eignir þar sem skilmálarnir eru þannig að rífa skuli hluta af húsinu og byggja restina upp samkvæmt upphaflegu útliti, þannig það er vissulega óvenjulegt.“

Björn segist viss um að eignin seljist, eða kannski er réttara að segja lóðin, því það þarf að byggja húsið alveg upp á nýjan leik þó vissulega nýtist eitthvað af því sem fyrir er í nýbygginguna. Að hans sögn er staðsetningin góð og þá mætti alveg hugsa sér einhverja áhugaverða nýtingu á húsinu þar sem það stendur á svæði þar sem er blanda af atvinnustarfsemi og íbúabyggð. Hins vegar verður húsið ekki stórt, ekki nema 120-130 fm, svo stærðin setur einhverjar skorður, þó kröfurnar snúi eingöngu að ytra útliti hússins.

Spennandi tækifæri fyrir iðnaðarmenn

„Ég myndi halda að þeir sem væru ákjósanlegastir í þetta verkefni væru iðnaðarmenn og minni byggingarfyrirtæki. Það er alltaf vinsælt hjá ákveðnum hópi að kaupa og gera upp og þetta er vissulega spennandi tækifæri, en svo er bara spurning um verkefnastöðuna, hvort einhver hafi tíma í þetta,“ segir Björn. Hann segir að það sé engin spurning að breytingarnar á húsinu verði því til bóta og nauðsynlegt að fá betri gönguleið við Glerárgötuna. „Það er engin spurning að þetta hús verður bæjarprýði þegar það hefur verið tekið í gegn.“

HÉR má sjá fyrri frétt Akureyri.net um tillögu arkitektsins Ágústs Hafsteinssonar að endurgerð hússins.