Fara í efni
Fréttir

Áfengissala hafin á skíðasvæðinu

Áfengissala hafin á skíðasvæðinu

Áfengissala hófst í Hlíðarfjalli í gær, bæði á veitingastaðnum í skíðahótelinu og í Strýtu. Það mun ekki hafa verið gert áður eftir því sem næst verður komist.

„Mörg okkar þekkja það erlendis frá að fá sér einn bjór eða kakó með rommi á góðum skíðadögum. Nú ætlum við að prófa að bjóða upp á þetta hér á Akureyri. Vonandi hafið þið þolinmæði með okkur á meðan við prófum okkur áfram – en umfram allt þá munum við leggja áherslu á öryggi og að öllum líði vel í fjallinu,“ segir í tilkynningu frá Facebook síðu veitingastaðarins í Hlíðarfjalli.

Þar segir að um helgina verði hægt að kaupa bjór, kakó með rommi, prosecco, hvítvín og rauðvín á veitingastaðnum á hótelinu en í Strýtu bjór og kakó með rommi.

Ekki má fara með áfengi út úr skíðahótelinu þessa helgina, en innan skamms verður sett upp svæði þar sem má neyta áfengis á skaflinum við nestishúsið.

„Við Strýtuna má fara með áfengið út á pall, en alls ekki í brekkurnar. Við biðjum alla að hjálpa okkur að sjá til að þessi nýjung fari vel af stað. Það eru allskonar reglur sem við þurfum að uppfylla, og það er aðeins gerlegt ef allir hjálpa okkur við það og fara eftir fyrirmælum starfsfólks. Einnig er mikilvægt að ekkert ónæði skapist og að sjálfsögðu eru allar COVID reglur ennþá í gildi.“