Fara í efni
Fréttir

Af litlum neista getur orðið kærleiksbál

Séra Sindri Geir Kristjánsson. Bakgrunnurinn er listaverk Leifs Breiðfjörð sem prýðir Glerárkirkju. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur Glerárprestakalls flutti eftirfarandi prédikun í guðsþjónustu í Glerárkirkju í dag. Sindri veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta hana í heild._ _ _

Guð ljóssins og lífsins – gefðu að við megum taka á móti þessari jólahátíð eins og börn – með eftirvæntingu og gleði, með von, kærleik og þakklæti. Í Jesú nafni. Amen.

Af litlum neista verður oft mikið bál.

Þetta þekkjum við öll úr okkar lífi – hvort sem neistinn var til góðs eða ills.

Ég þekki það amk. sjálfur að litlar blessanir, litlar vonarglætur geta sprungið út og blómstrað, en líka að litlir misskilningar eða pirringar geta orðið að deilum eða ósætti sem þarf að mæta með slökkvitæki kærleikans og friðarins.

Í kvöld tendruðum við fjórða kertið á aðventukransinum. Við höfum undanfarnar vikur leyft ljósinu að vaxa og magnast, minnt okkur á að þrátt fyrir myrkur og drunga kemur að því að ljósið bægi frá öllu myrkri. Fyrst logaði eitt, svo tvö, þrjú og nú lýsa þau fjögur – litlir neistar sem benda á hið mikla ljós jólafrásagnarinnar.

Á þessu heilaga kvöldi gefum við rými fyrir hið ljúfa, mjúka og fagra í boðskapnum. Samt er það svo að saga kvöldsins, sjálfur guðspjallatextinn geymir í sér meiri spennu, drunga og dýpt mannlegra tilfinninga en sú fagra jólasaga um barnið í Betlehem sem við geymum flest innra með okkur. Því ef eitthvað er mannlegt og satt – þá er það ekki bara umvafið ljósi og birtu, heldur líka flækjum og flóknum tilfinningum.

Þegar við stöndum andspænis jólahátíðinni með öllum sínum hefðum, gleði og eftirvæntingu þá viljum við mörg fá að dvelja í þessu heilaga, einfalda og fagra, frekar en að snerta á því mannlega og djúpa. Það birtist ljóslifandi í færslu mikils kirkjuvinar á facebook þegar hann velti því fyrir sér eftir útvarpsmessu á jóladag „af hverju prestar gætu ekki bara flutt eðlilega prédikun um Maríu, Jósep og barnið í jötunni í staðin fyrir útúrsnúninga sem drepa allt jólaskap.“ Hann vildi greinilega fá mjúku og hlýju hlið boðskapsins.

Ég viðurkenni að þessa aðventu höfum við mörg sem fáum að prédika um jól átt erfitt með að koma orðum á blað án þess að hugurinn leiti að leiksviði jólaguðspjallsins. Þar sem margt fólk lifir í kvöld aðstæður sögunnar um parið sem var fjarri heimkynnum sínum, án húsaskjóls, í lífsháska. Því guðspjallasagan fagra segir sannarlega ekki frá kósýheitum og jólaskapi – en hún segir frá sannleik sem ristir mun dýpra. Sannleik sem gefur mér von frammi fyrir öllum harmi og þyngslum.

Svo þrátt fyrir að ætla að vera í mýkt og fegurð jólanna í kvöld – þá ætla ég líka að leggja á djúpið.

Annarskonar vald

Á aðventunni höfum við tekið á móti yfir 600 nemendum og kennurum hér, sagt jólasöguna, átt samtal, svarað spurningum og sungið jólalög – Valmar er búinn að spila Snjókorn falla tvisvar, þrisvar, á dag undanfarnar vikur, það virðist vera uppáhalds jólalag allra krakka hér í Þorpinu. 

En ein heimsóknin hófst á því að ungur meistari laumaðist fram hjá kennaranum sínum, hljóp upp í prédikunarstólinn og hrópaði „ÉG ER KÓNGURINN, HNEIGIÐ YKKUR FYRIR MÉR“. Þar fékk hann útrás fyrir einhverjar vonir og drauma, en fyrir mér þá rímaði þetta svo vel við það óvænta og óvenjulega sem jólin segja okkur um vald. Í kvöld lásum við jólaguðspjall Lúkasar en þið munið eftir Vitringunum í guðspjalli Matteusar, sem leituðu hins nýja konungs.

Konungsins sem hegðar sér bara ekkert eins og konungur. Þeir leituðu Guðs sem fæddist inn í myrkur, ótta og angist, inn í fátækt og hrakningar, var lagður í jötu en ekki á silkisængurföt. Konungs sem var algjörlega valdalaus á alla mælikvarða okkar mannfólksins – en hafði þó allt vald kærleikans, friðarins og náðarinnar í höndum sér.

Vitringarnir leituðu hans til að sýna honum lotningu eins og segir. Þar var ekkert boðvald „hneigið ykkur fyrir mér“. Þar var vald hjartans, vald kærleikans – sem boðskapur kvöldsins segir okkur að verði að ráða för í þessum heimi.

Því það er valdið sem slekkur ófriðarbál, sem lætur mildi og frið flæða.

Ég leyfi mér að fullyrða að ef við mætum litlum neista ótta, ójöfnuðar, ofbeldis, haturs eða ófriðar með græðandi kærleik og miskunn – leiðir það af sér sátt og frið. Ef við mætum sama neista með valdboði, útilokun, skömm, ofbeldi, skeytingarleysi eða hatri – leiðir það af sér meiri harm og ófrið – logandi bál sem brennir allt sem fyrir því verður.

Litla barnið í jötunni - Guð kominn í heiminn til að leiða okkur inn í hlýju og öryggi kærleikans - snýr öllu á hvolf. Það er ekki vald okkar mannanna sem leiðir okkur inn í hið fagra og sanna í þessum heimi, lykillinn að lífshamingjunni býr ekki í stöðu, auði eða metorðum – hann býr í hjarta okkar, í barninu sem býr í okkur öllum, í Guði sem býr í okkur öllum.

Fegurð hins smáa

Jólanóttin var eins og hver önnur fyrir hirðunum sem stóðu vakt á Betlehemvöllum. Þeir skiptust líklega á að sofa og vaka yfir fénu, erfiðisvinna og lítilsmetin. Raunar virðast sagfræðingar sumir hverjir telja að þetta starf hafi verið svo ómerkilegt á tímum Jesú að aðeins þeir lægstu af öllum lægstu fengust til að sinna því, þeir sem ekki höfðu möguleika á að sjá fyrir sér og sínum á nokkurn annan máta.

Ég get ekki trúað að það fari vel í sálartetur neins að upplifa sig lágan og smáan.

Hér fyrir jólin rakst ég á skömmina sem fylgir því að upplifa sig lítil og smá. Óttann sem fylgir því að geta ekki séð fyrir fólkinu sínu. Með Bónuskortinu sem við afhentum var líka gerð tilraun til að veita fólki andlega inneign, styðja við sjálfsvirðingu og reisn. Fólk þarf ekki að skammast sín fyrir fátækt – skömmin er samfélags sem leyfir fátækt að viðgangast. Samfélags sem leyfir jaðarsetningu.

Hvaða andlegu næringu ætli mennirnir á jaðri samfélagsins, hirðarnir, hafi þurft á að halda? Ég held að hún búi í tveim fyrstu orðum engilsins, „óttist ekki“.

Hvernig tala þessi orð inn í líf og sál þess sem lifir í smæð á jaðrinum, sem lifir í ótta?

Hvernig ætli þau tala inn í sálardjúp hvers og eins okkar?

Hvað er það litla og smáa í þér sem þarf að heyra – óttastu ekki.

Kannski er það barnið sem við berum í okkur, óttinn við höfnun og útilokun, óttinn að vera yfirgefin eða smánuð.

Jesús segir við okkur „hver sem ekki tekur við Guðsríkinu eins og barn mun aldrei inn í það koma“. Guðsríkið, himnaríkinn – þessi veruleiki sem kristur segir búa jafnt innra með okkur og mitt á meðal okkar í samfélagi mannanna – þangað náum við ekki nema við séum í tengslum við barnið í okkur.

Barnið sem á traust gagnvart heiminum, barnið sem undrast, gleðst, treystir, elskar, vonar og getur séð fegurð þess smáa.

Hátíð barnsins

Hvað brýst fram ef barnið sem hvert og eitt okkar ber innra með sér er óttalaust? Ef það læsist ekki í vönum og varnarviðbrögðum sem lífið kennir, ef það fær að vera kennari okkar í því að mæta samferðafólkinu og samfélaginu. – Ég held að það væri heimur nær þeim heimi sem Jesús kom til að boða.

Jólin eru ekki bara hátíð barnanna í kringum okkur – það er líka hátíð barnsins sem býr innra með okkur, barnsins sem við þurfum að viðurkenna og næra, þekkja og elska.

Því maður minn, átök heimsins, átök í fjölskyldum, vinahópum, vinnustöðum og samfélögum – þau eiga ansi oft rót sína í því að fólk er að burðast með sært barn innra með sér – varnarviðbrögð sem teygja sig aftur í æsku – jafnvel aftur um kynslóðir. Ég leyfi mér að halda fram að þau ofsafengnu viðbrögð og manngerðu hamfarir sem við sjáum eiga sér stað í landinu helga, hatrið og skeytingarleysið gagnvart lífum eigi rætur í ótta og sársauka sem teygir sig langt aftur.

Á þessari hátíð barnsins berum við mörg marið hjarta vegna átakanna í Palestínu, þar sem jólin hafa verið slegin af í öllum kirkjum. Þaðan, mitt úr hörmungunum berst hinsvegar rödd vonar. Kristin systkini okkar í Landinu helga senda okkur jólakveðju sína og minna okkur á að það sem þau eru að mæta núna, eru aðstæður jólaguðspjallsins. Átök og ótti – og inn í þær aðstæður sendi Guð son sinn, friðarhöfðingjann, ljós heimsins – inn í heim óvissu fæddist Guð vonarinnar til að veita okkur vonarríka framtíð.

Af litlum neista getur komið mikið bál

Eitt af því sem jólin gefa okkur, og eitt af því sem þau geta nært, er sú trú að jafnvel þegar myrkrið virðist kæfandi – þá er alltaf vonarglæta. Í dimmu fjárhúsi fæddist lítið barn sem átti eftir að breyta heiminum, átti eftir að kenna veg kærleikans og átti eftir að leiða okkur til frelsunar frá þeim öflum sem vilja telja okkur trú um að heimurinn sé bara eins og hann er – og ekkert sé hægt að gera í því. Sem frelsar okkur frá þeim ótta sem getur búið innra með okkur og eflir okkur til lífs í von og kærleik.

Það er á okkar færi að ganga í áttina að því ríki friðarins og kærleikans sem Kristur boðar, að vera ljósberar, fólk sem gefur af sér birtu og hlýju, fólk sem sér að vald hjartans er máttugra en köld rökhyggja mannlegs valds, fólk sem leyfir sér að undrast og sjá fegurð hins smáa. Fólk sem leyfir sér að taka á móti náð og kærleik Guðs og spegla þær gjafir út í samfélag sitt.

Hin fyrstu jól voru frekar einföld, foreldrar með lítið barn í fangi sér, ókunnugir gestir, hlýja og þakklæti, vonarbirta í rökkrinu og kærleikurinn sem barnið laðar fram batt þetta allt saman.

Þegar við fögnum jólum á okkar hátt, hvort sem það er með veislu og pökkum, notalegri stund með jólabók og smákökur, kvöldgöngu eða hvíld – leyfum okkur þá að gera það innilega, stöldrum við og leyfum jólabarninu í okkur öllum að undrast og gleðjast, þakka og njóta – ræktum kærleikann okkar, ræktum barnið innra með okkur, svo að við getum mætt öllu okkar samferðafólki, og mætt okkur sjálfum með friði, von og kærleik.

Af litlum kærleiksneista, getur komið mikið kærleiksbál.

Þannig göngum við með Guði, þannig leyfum við ljósinu að skína í myrkrinu.

Amen.