Fara í efni
Fréttir

Ævintýramark kom KA/Þór áfram!

Aldís Ásta Heimisdóttir tryggði KA/Þór sigur með stórkostlegu marki beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var liðinn. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Íslandsmeistarar KA/Þór komust í dag í undanúrslit Íslandsmótsins í handbolta með ævintýralegum sigri á Haukum í Hafnarfirði. Meistararnir mæta Val í undanúrslitunum og verður fyrsti leikur liðanna í lok vikunnar á heimavelli Vals.

Staðan var 23:23 þegar leiktíminn rann út, KA/Þór átti aukakast á „vonlausum“ stað vinstra megin og allir í húsinu bjuggu sig sennilega undir framlengingu því knýja þurfti fram úrslit; allir nema Aldís Ásta Heimisdóttir sem tók að sér að skjóta. Ótrúlegt en satt: hún þrumaði boltanum yfir varnarmúr Hauka og yfir markvörðinn – 24:23. Stórkostlega gert!

Leikurinn var mjög jafn lengi vel en þegar leið á fyrri hálfleikinn náði KA/Þór góðum kafla og hafði fjögurra marka forskot í hálfleik, 15:11.

Haukar komu mjög ákveðnir til seinni hálfleiks, nálguðust meistarana óðfluga á fyrstu mínútunum og komust svo yfir, 18:17, þegar tæpar 20 mínútur voru eftir. KA/Þór gerði ekki nema tvö mörk á fyrstu 13 mínútum seinni hálfleiks.

Síðustu 10 mínúturnar var allt í járnum, Haukar komust í 23:21 þegar fimm mínútur voru eftir, en KA/Þór jafnaði með mörkum Rakelar Söru eftir hraðaupphlaup og Rutar Jónsdóttur úr víti.

Þegar tvær mínútur eftir og staðan jöfn fékk KA/Þór víti en Margrét Einarsdóttir varði frá Rut Jónsdóttur. Haukar misstu boltann í næstu sókn – sinni síðustu – og KA/Þór náði ekki að brjóta niður varnarmúr Hauka. Leiktíminn rann síðan út, sem fyrr segir, og síðan gerðist ævintýrið sem áður er lýst.

Mörk KA/Þórs: Rut Jónsdóttir 8 (4 víti), Aldís Ásta Heimisdóttir 7, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 1 og Unnur Ómarsdóttir 1.

Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 11 (1 víti), Matea Lonac 1.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna