Fara í efni
Fréttir

Ætla sér að selja þúsund jólatré

Kristján Þór Júlíusson og Þorsteinn sonur hans keyptu jólatré í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sala er hafin á jólatrjám í Kjarnaskógi. Fyrstu trén fóru til nýrra heimkynna á föstudag og nokkrir tugir seldust um helgina, að sögn Davids Joseph Dowling, starfsmanns Skógræktarfélags Eyfirðinga. Félagið selur nú fyrsta sinni heimilisjólatré í Kjarnaskógi, tekur við því hlutverki af gróðrarstöðinni Sólskógum sem hyggst einbeita sér að ræktun skógarplantna og framleiðslu á garðplöntum.

Þegar Akureyri.net leit við í gær voru sjö manns þegar innandyra og máttu ekki vera fleiri í einu, skv. reglum. En sumir eru snöggir að velja og biðin var því ekki löng.

Þegar inn kemur standa tveir menn og skoða tré, andlitið hulið með grímu eins og vera ber. „Við keyptum stafafuru,“ segir eldri grímumaðurinn og röddin kemur upp um hann. Þar fer Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og þeir Þorsteinn sonur hans komast ekki hjá því að lofa blaðamanni að lyfta myndavélinni og ýta á takkann.

„Við erum að læra!“ segir sölumaðurinn David um fyrstu söludagana. „Við ætlum að selja þúsund tré, erum með 300 frá Danmörku en seljum líka tré úr Kjarnaskógi, frá Miðhálsstöðum og úr Öxnadal. Þá erum við með tré úr Hallormsstaðaskógi og fáum eitthvað beint frá bændum.“

David segir að venjulega séu stafafura og Normannsþinur vinsælust jólatrjáa hérlendis og þar er komin skýringin á dönsku trjánum; Normannsþinur vex ekki á Íslandi en Danir eru duglegastir allra Evrópuþjóða við ræktun hans.

Rétt er að geta þess að í ljósi kórónuveirufjandans og sóttvarnaregla býður Skógræktarfélagið upp á heimsendingu jólatrjáa að þessu sinni. Starfsmenn félagsins sjá um að velja tré eftir óskum kaupenda og koma trjánum á áfangastað. Jafnframt verða til sölu forhöggvin tré í Jólaskóginum á Laugalandi og þangað gefst fólki kostur að höggva sín eigin eigin jólatré tvær síðustu helgarnar fyrir jól, líkt og verið hefur um árabil.