Fara í efni
Fréttir

Æfa viðbrögð við slysi og reyk í göngunum

Vaðlaheiðargöng verða lokuð milli klukkan 10.00 og 15.00 næsta þriðjudag, 13. september. Á þeim tíma mun lögregla og slökkvilið æfa viðbrögð við umferðarslysi og reyk í göngunum.

Tilgangurinn er að sjá hvernig reykur fyllir göngin, hvernig reykkafarar geta athafnað sig og bjargað fólki úr bílflaki, og ekki síst hvernig reyklosun með gangablásurum tekst, að sögn Valgeirs Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga.

Á síðasta ári fjárfesti Vegagerðin í æfingabúnaði fyrir jarðgöng á Íslandi, m.a. reykvélum, gasbrennurum, ljósum og hátölurum. Búnaðurinn verður nú prófaður í fyrsta skipti á vettvangi.

Með búnaðinum er hægt að búa til aðstæður eins og um alvöru eld væri að ræða en án allrar mengunar eða áhættu á heilsutjóni.

Hönnuðir og framleiðendur búnaðarins frá Hollandi verða á staðnum og aðstoða við uppsetningu svo allt verði eins og best verði á kosið, að sögn Valgeirs Bergmann.