Fara í efni
Fréttir

Aðstaða tökumanna þykir ekki boðleg

Séð af pallinum í Boganum, þar sem tökulið og fjölmiðlafólk hefur aðstöðu á leikjum.

Aðstaða fyrir tökumenn og reyndar fjölmiðlafólk almennt er ekki upp á marga fiska á knattspyrnuvöllum á Akureyri og á það við um alla þrjá, Þórsvöllinn, KA-völlinn og Bogann. Í Boganum og við Þórsvöllinn má segja að hönnun sé ábótavant út frá sjónarmiði fjölmiðlafólks sem mætir á leiki til að horfa á þá, skrifa um þá lýsa þeim og/eða taka upp/sýna beint. Aðstaðan hjá KA er til bráðabirgða á meðan uppbygging nýs keppnisvallar stendur yfir. Aðstöðu fyrir tökuvélar og -fólk má svo í leiðinni velta fyrir sér með lengingu knattspyrnutímabilsins í huga þegar byrjað er að spila snemma í apríl og mótin standa fram í október.

Gámurinn fauk, tökumaður í stæði fatlaðra

Þegar karlalið Þórs komst upp í efstu deild voru settir upp gámar við austurhlið vallarins, tveir gámar og pallur ofan á. Þar var aðstaða fyrir tökuvélar og lýsendur gátu þá verið í neðri gámnum ef þurfti. Fyrir nokkrum árum fuku gámarnir um koll í óveðri, sá efri og pallurinn skemmdust þannig að þeir hafa ekki verið notaðir síðan fyrir myndatökur. Þegar leikir eru sýndir beint frá Þórsvelli hefur tökuvélum verið stillt upp á palli í stúkunni, framan við herbergi vallarþular, palli sem upphaflega var reyndar merktur sem aðstaða fyrir hreyfihamlaða enda hannaður þannig að þar var pláss fyrir tvo hjólastóla.

Aðstaða fjölmiðlafólks á Þórsvellinum, eða blaðamannastúkan eins og sagt er, er heldur ekki til að hrópa húrra fyrir. Þegar völlurinn var tekinn í notkun 2009 og fjölmennt á leikjum áttuðu menn sig á því að áhorfendur gengu fram og aftur, beint fyrir framan fjölmiðlafólkið sem var að reyna að fylgjast með leikjunum og í sömu hæð. Þá var brugðið á það ráð að setja upp málmhlið og keðjur, og gönguleiðinni framan við fjölmiðlaaðstöðuna þannig lokað á meðan leikir eru í gangi.

Vonandi frábær aðstaða á nýjum velli

Á KA-vellinum, eins og hann er núna, sitja fjölmiðlamenn og vallarþulur í júdósalnum með takmarkaða yfirsýn á völlinn og þurfa að teygja sig og færa eftir því hvort boltinn og hasarinn fer út í horn þarna megin eða hinum megin. Þægilegast fyrir þau sem stunda beinar textalýsingar að vera með útsendingu Stöðvar 2 bara í símanum eða tölvunni og horfa þar og gætu þá allt eins unnið hluta af starfi sínu heima hjá sér. Þegar sýnt er frá leikjum þarf að leigja körfubíl fyrir tökumann og myndavélar.

Gera verður ráð fyrir að fólk læri af reynslunni og þegar uppbyggingu þar er lokið verði aðstaða fjölmiðlafólks til fyrirmyndar. 

Aðstaðan í Boganum óboðleg

Svalirnar svokölluðu í Boganum hafa lengi verið þyrnir í augum þeirra sem mæta á leiki með dýran og þungan búnað til að sýna beint frá leikjum þar. Erfið og þröng uppganga og takmarkað útsýni vegna loftræstiröra hamla mjög starfi tökumanna og fjölmiðlafólks. Leitað hefur verið leiða til að bæta úr þeirri aðstöðu eða jafnvel koma upp nýrri hinum megin vallarins, yfir hlaupabrautinni, en af því hefur ekki orðið enn.

Í dag ákvað mótastjóri KSÍ að færa leik Þórs/KA og Breiðabliks inn í Bogann vegna vallar- og veðurskilyrða. Samkvæmt heimildum Akureyri.net hefur tökumaður sem átti að mæta á Þórsvöllinn í dag látið vita af því að hann sætti sig ekki við að taka upp fleiri leiki af svölunum í Boganum. Sú staða gat því komið upp að leikur dagsins á milli Þórs/KA og Breiðabliks yrði ekki sýndur í beinni á Stöð 2 sport, en nú síðdegis var málið leyst til bráðabirgða með því að stafla upp brettum og setja krossviðarplötu ofan á. 

Það má því gera ráð fyrir að leikurinn verði sýndur, en sjónarhornið verður sennilega lægra en í flestum leikjum sem fólk horfir á í beinni í Bestu deildinni. 

Svalirnar í Boganum. Erfitt aðgengi og léleg yfirsýn á völlinn angrar tökufólk.

Uppgöngustiginn séður ofan frá.


Starfsmenn Þórs unnu að því sídegis að koma upp bráðabirgðapalli fyrir leikinn í kvöld.