Fara í efni
Fréttir

Bærinn spyr: Hvernig viltu hafa íbúasamráð?

Drög að stefnu um íbúasamráð liggja nú fyrir í samráðsgáttinni „Okkar Akureyri“ og leitar sveitarfélagið til íbúa eftir áliti og ábendingum um það sem betur má fara.

„Hér er kjörið tækifæri fyrir þau sem vilja hafa áhrif á starfsemi og þjónustu bæjarins að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka um leið þátt í að móta framtíð íbúasamráðs í sveitarfélaginu,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

„Stefnan gerir ráð fyrir því að íbúasamráð verði sjálfsagður og mikilvægur þáttur í verklagi Akureyrarbæjar við ákvarðanatöku, stefnumótun og þróun þjónustu. Með því að leita markvisst eftir sjónarmiðum íbúa, og beita til þess fjölbreyttum aðferðum, er tilgangurinn að auka möguleika fólks til áhrifa og veita röddum ólíkra hópa aukið vægi. Einnig er markmiðið að stuðla að upplýstri umræðu og bæta ákvarðanir með því að nýta þá þekkingu sem samfélagið býr yfir.“

Stefnan skiptist í fjóra meginflokka: Markvisst íbúasamráð, fjölbreyttar aðferðir, gagnsæi og miðlun og endurgjöf.

Á þessu stigi er óskað eftir ábendingum og hugmyndum frá íbúum í gegnum rafræna samráðsvettvanginn Okkar Akureyri.

Ábendingafrestur er til og með 22. september nk.

Heimasvæði íbúasamráðs á Akureyri.is.