Fara í efni
Fréttir

Aðeins þrír af 11 áfram í bæjarstjórn?

Efsta röð frá vinstri: Gunnar Gíslason, Eva Hrund Einarsdóttir og Þórhallur Jónsson. Miðröð frá vinstri: Halla Björk Reynisdóttir, Andri Teitsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Ingibjörg Isaksen. Neðsta röð frá vinstri: Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Haraldsson, Sóley Björk Stefánsdóttir og Hlynur Jóhannsson.

Ljóst er að miklar breytingar verða á bæjarstjórn Akureyrar á næsta kjörtímabili. Öruggt er að sex bæjarfulltrúar verða ekki starfandi áfram eftir kosningarnar næsta vor og miklar líkur á að tveir að auki hverfi á braut. Svo gæti því farið að aðeins þrír af 11 núverandi bæjarfulltrúum verði áfram aðalmenn að loknum kosningum vorið 2022.

  • Sjálfstæðisflokkur (22,9% – 3 bæjarfulltrúar) – Gunnar Gíslason, oddviti sjálfstæðismanna, og Eva Hrund Einarsdóttir sem skipuðu tvö efstu sæti listans 2018 verða hvorugt í kjöri í vor en þriðji bæjarfulltrúi flokksins, Þórhallur Jónsson, gefur kost á sér áfram – ekki þó í oddvitasætið. Sjálfstæðsmenn hafa ákveðið að halda prófkjör um efstu fjögur sætin.
  • L-Listinn (20,9% – 2 bæjarfulltrúar) – Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans og forseti bæjarstjórnar, segist að öllum líkindum gefa kost á sér næsta vor – en ekki í oddvitasætið. Andri Teitsson, hinn bæjarfulltrúi L-listans, kveðst ekki hafa gert upp hug sinn.
  • Framsóknarflokkur (17,5% – 2 bæjarfulltrúar) – Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarmanna, gefur ekki kost á sér og Ingibjörg Isaksen hætti eftir að hún var kjörin á Alþingi í haust. Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, sem tók sæti Ingibjargar í bæjarstjórn, mun að óbreyttu heldur ekki verða í framboði í vor að því hún tjáði Akureyri.net.
  • Samfylking (16,8% – 2 bæjarfulltrúar) – Hilda Jana Gísladóttir, oddviti flokksins, verður í framboði á ný. Heimir Haraldsson, hinn bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur hins vegar tilkynnt flokksfélögum sínum að hann gefi ekki kost á sér næsta vor. Dagbjört Elín Pálsdóttir var kjörin í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna 2014 en flutti úr bænum á miðju kjörtímabilinu og Heimir tók sæti hennar.
  • VG (9,4% – 1 bæjarfulltrúi) – Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur tilkynnt flokksfélögum sínum að hún gefi ekki kost á sér í fyrsta sæti á lista flokksins.
  • Miðflokkur (8,1% – 1 bæjarfulltrúi) – Nánast öruggt er að Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, verði ekki í framboði í bæjarstjórnarkosningunum. „99%““ segir hann.