Fara í efni
Fréttir

Aðeins pláss fyrir eina konu og börn hennar

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Einungis verður hægt að taka á móti einni konu og börnum hennar í senn í kvennaathvarfinu á Akureyri, þar til lausn finnst til að tryggja rekstur athvarfsins til frambúðar. Illa hefur gengið að finna rekstrarform sem uppfyllir skilyrði sem Samtök um kvennaathvarf setja fram. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Árið 2020 hófu Samtök um kvennaathvarf (SUK) tilraunaverkefni um rekstur neyðarathvarfs á Akureyri í samvinnu við Bjarmahlíð, sveitarfélög á Norðurlandi eystra, Aflið, félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra. Tilraunaverkefnið var til eins árs, en að því loknu ákvað stjórn SUK að fela framkvæmdastýru að þróa áfram samstarf við hlutaðeigandi aðila á svæðinu til að tryggja áframhaldandi rekstur, eins og segir í tilkynningunni.

„Á síðasta ári dvöldu 17 konur og 15 börn í athvarfinu á Akureyri, en erfiðlega hefur gengið að finna rekstrarform sem uppfyllir þau skilyrði sem SUK setur fram til að tryggja öryggi og stuðning við konur og börn sem dvelja í athvarfinu. Því er ljóst að víðtækt samstarf þarf að koma til svo unnt sé að tryggja reksturinn til lengri tíma,“ segir þar.

„Stjórn SUK hefur fundað með fulltrúum stjórnvalda og hagsmunaaðilum á Akureyri og í nærliggjandi sveitarfélögum og vonast til þess að hægt verði að tryggja rekstur kvennaathvarfs á Akureyri til frambúðar. Þar til lausn er fundin getur athvarfið á Akureyri ekki tekið á móti nema einni konu og börnum hennar í senn.“