Fara í efni
Fréttir

Aðalleiðir greiðar en vond færð í íbúðagötum

Ökumaður þessa bíls festi hann í íbúðagötu þótt ekki sé mikill snjór í þessu tilfelli. Hann varð að stöðva vegna annars sem ók framhjá, mikil hálka er á götum þannig að hann spólaði og komst hvorki lönd né strönd. En hann hélt fljótlega leiðar sinnar eftir aðstoð góðra nágranna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Vont færi er í mörgum íbúðagötum á Akureyri eftir að nokkuð snjóaði í nótt. Hvasst var í nótt þannig að víðar hefur skafið í skafla, en veðrið er orðið mun betra þótt enn blási hressilega. „Það er búið moka aðalleiðir í bænum en ekki minna eknar götur og víða er töluverð drift. Það eru ekki margir á ferðinni ennþá, varla neinn á götunum nema snjómoksturstæki,“ sagði varðstjóri hjá lögreglunni við Akureyri.net í morgun.

Á Norður­landi eystra er gul viðvör­un í gildi þangað til klukk­an níu í fyrra­málið, föstu­dag. „Norðan­hvassviðri 13-20 m/​s með snjó­komu og skafrenn­ingi. Lé­legt skyggni og slæm akst­urs­skil­yrði. Færð get­ur spillst,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.