Fara í efni
Fréttir

„Að sjálfsögðu kláraði ég bjórinn“

Jón Stefánsson hinn rólegasti fyrir utan Bláu könnuna í gærkvöldi.

„Fréttaljósmynd ársins er lýsing sem hefur verið höfð um myndina hér að ofan, þar sem Jón Stefánsson, sjálfur meira að segja fyrrverandi ljósmyndari, situr hinn rólegasti og klárar sinn Gull af krana fyrir utan Bláu könnuna á Akureyri á meðan hamfaraástand ríkir í kringum hann.“

Þannig hefst frétt á Vísi í morgun, þar sem meðfylgjandi mynd er birt. Hún er tekin í gærkvöldi eftir slagsmál í göngugötunni á Akureyri.

„Að sjálfsögðu kláraði ég bjórinn,“ segir Jón Stefánsson, leigubílstjóri í Reykjavík, í samtali við blaðamann Vísis. Myndin, sem tengdasonur Jóns tók og birtist á mbl.is og Akureyri.net í gærkvöldi, hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og margir hrifist af yfirvegun Jóns.

Vísir spyr hvort mönnum hafi bara staðið á sama. „Ég veit ekki um aðra en ég hef nú séð ýmislegt, búinn að vera í slökkviliðinu og flugbjörgunarsveitinni. Ég drakk minn bjór, ég ætlaði ekki að fara að skipta mér af þessu.“ 

Fimm gistu fangaklefa í nótt eftir slagsmálin en maðurinn fyrir miðri mynd var fluttur á sjúkrahúsi eftir að hafa skorist illa á hendi. Honum var kastað á rúðu sem brotnaði.

Að sögn lögreglunnar á Akureyri í morgun voru slagsmálahundarnir útlendingar, allt samlandar. Hafi einhver velt fyrir sér hvort um einhvers konar uppgjör hafi verið að ræða segir varðstjóri svo alls ekki vera heldur einfaldlega slagsmál af gamla taginu. Málið er enn í rannsókn og verið að yfirheyra mennina.

Smellið hér til að lesa frétt Vísis.