Fara í efni
Fréttir

Að selja eða ekki selja áfengi – þar er efinn

Veitingamaður á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli hefur óskað eftir leyfi til að selja áfengi, bæði í skíðahótelinu og skálanum í Strýtu. Bæjarráð Akureyrar tók vel í erindið á síðasta fundi en bæjarfulltrúi VG leggst alfarið gegn því.  

Áfengi var selt um tíma síðasta vetur í Hlíðarfjalli. Ekki var einhugur í bæjarráði þá meirihluti veitti jákvæða umsögn og sala hófst snemma í mars. Sumir mótmæltu ákvörðuninni harðlega en aðrir lýstu yfir mikilli hrifningu. Í lok sama mánaðar breyttu bæjaryfirvöld skilyrðum fyrir áfengissölu og í kjölfarið hætti þáverandi veitingasali starfsemi á svæðinu.

  • „Að geta fengið sér aðeins í tána ætti að auka á upplifun fólks sem kemur í fjallið,“ segir Sölvi Antonsson, sem tók við veitingarekstri um áramótin, í samtali við Morgunblaðið í dag.
  • „Við viljum skapa góða stemningu í Hlíðarfjalli, líka því sem þekkist til dæmis á skíðasvæðunum í Evrópu þangað sem Íslendingar fara mikið,“ segir Sölvi í blaðinu. „Bjórkolla með kröftugri kryddpylsu gefur lífinu gildi. Sé áfengi eða bjór seldur í plastglösum í fjallinu verða ekki dósir og flöskur út um allt ef fólk kemur með veigarnar með sér á svæðið. En ég ítreka líka að við munum ef til þess kemur að leyfi til áfengissölu fáist verða með arnaraugu á því að fólk sé ekki ölvað í skíðabrekkunum, með allri þeirri slysahættu sem því kann að fylgja.“
  • Andri Teitsson bæjarfulltrúi var einn þeirra sem studdu málið í bæjarráði. Í Morgunblaðinu í dag segir Andri Hlíðarfjall vera vinsælan ferðamannastað sem styrkja þurfi í sessi. „Viðleitni til þess hafi verið ráðandi í afstöðu bæjarstjórnar þegar tekið var jákvætt í erindi um áfengisveitingar þar. Einnig megi benda á að nokkuð hafi verið um að fólk sem kemur í fjallið hafi með sér til dæmis léttvín og bjór, sem neytt sé til dæmis í brekkum og á bílastæðum. Vera kunna þá að betur fari á því að fólk neyti veiganna og kaupi á viðurkenndum veitingastað í fjallinu,“ segir í blaðinu.

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG, lagði fram eftirfarandi bókun á fundi bæjarráðs þar sem fjallað var um málið:

  • „Ég tel sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi á þessu svæði þar sem ungt fólk, börn og fjölskyldur hafa hingað til notið útivistar og samveru sem er að mínu mati mikilvægur þáttur í þjónustu við íbúa bæjarins. Þessi ákvörðun samræmist á engan hátt því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Vert er að benda á að mikil hætta getur skapast í brekkunum sé skíðafólk ekki með fulla stjórn á hreyfingum sínum.“

Hér má sjá umfjöllun Akureyri.net um áfengissölu í Hlíðarfjalli snemma síðasta árs:

Bæjarráð: Ekki einhugur um áfengissöluna

Breyta vínveitingaleyfi, veitingasalinn hættir

Hildur Eir: Halló Hlíðarfjall!