Fara í efni
Fréttir

Að austan, vestan og sunnan – ekki Að norðan

Mannlífsþættirnir Að austan, Að vestan og Að sunnan verða á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri í vetur eins og síðustu ár. Engir nýir Að norðan þættir eru hins vegar fyrirhugaðir.

„Því miður hafa norðlensk sveitarfélög ekki séð ástæðu til að vinna með N4 að gerð þátta um mannlíf og menningu á Norðurlandi í ár," segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4 á vef stöðvarinnar. Sveitarfélög í öllum landshlutum hafa hingað til tekið þátt í kostnaði við gerð þáttanna.

Þáttaröð um mannlíf á Austurland hefst á morgun en fyrstu þættir um Vesturland og Suðurland fara í loftið í næstu viku.

„N4 hefur átt í góðu samstarfi við sveitarfélögin á Austurlandi síðan 2011/12 þegar dagskrárgerðarmaðurinn Gísli Sigurgeirsson byrjaði með þáttinn Glettur að austan sem var forveri Að austan þáttanna, sem fjalla um mannlíf og menningu á Austurlandi. Þættirnir fara nú í loftið sjöunda árið í röð,“ segir á vef N4.