Fara í efni
Fréttir

Mörgum sagt upp á öldrunarheimilunum

Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.
Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.

Hópi starfsmanna Öldrunarheimila Akureyrar hefur verið sagt upp störfum síðustu daga. Samkvæmt heimildum Vísis eru þeir um 25 og meðal þeirra sem fékk uppsagnarbréf í dag er Halldór S. Guðmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar frá því í byrjun árs 2013.

Einkafyrirtækið Heilsuvernd tók við rekstri heimilanna 1. maí, eftir að Sjúkratryggingar Íslands sömdu við fyrirtækið í kjölfar þess að Akureyrarbær sagði upp rekstrarsamningi við ríkið.

„Svei arðvæðingunni“

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, birti í kvöld á Facebook síðu sinni uppsagnarbréf sem 64 ára kona fékk frá Heilsuvernd. Hún hefur starfað á Öldrunarheimilum Akureyrar í 20 ár. Uppsagnarfrestur er sex mánuðir og ekki er óskað eftir því að konan vinni þann tíma. „Svei þeim og svei arðvæðingunni! Nú á að losa sig við „dýra“ starfsfólkið og ná „hagræðingu“. Starfsfólkið er fyrst til að taka skellinn, þetta líðst með vitund og vilja ríkis og sveitarfélagsins!“ skrifar Drífa Snædal.

Átti maður ekki von á þessu?

Björn Snæbjörnsson, formaður stéttarfélagsins Einingar-Iðju, staðfestir við Vísi að sex af 150 félagsmönnum hans inni á hjúkrunarheimilunum hafi fengið uppsagnarbréf. Þeir séu á öllum aldri. Björn segir viðbúið að fyrirtækið sé að ráðast í hagræðingu með þessum hætti. „Átti maður ekki von á þessu? Ef bærinn gat ekki rekið þetta og einkafyrirtæki var fengið í það gat maður átt von á að svona kæmi upp,“ segir Björn við Vísi.

Nánar hér á Vísi.

Bærinn borgaði gífurlegar fjárhæðir með rekstrinum

Ástæða þess að Akureyrarbær sagði upp rekstrarsamningi um hjúkrunarheimilin var, að sögn forráðamanna bæjarins, að daggjöld frá ríkinu höfðu árum saman ekki staðið undir kostnaði. Ríkinu ber að greiða fyrir rekstur heimilanna en bærinn sá um reksturinn, skv. samningi, en greiddi alls 1,7 milljarð króna með rekstri hjúkrunarheimila bæjarins – Hlíðar og Lögmannshlíðar – á árunum 2012 til 2020.

Smellið hér til að lesa um samning Sjúkratrygginga ríkisins og Heilsuverndar.