Fara í efni
Fréttir

Flugeldarusl eftir áramótin 9,5 tonn

Flugeldar sem glöddu Akureyringa á gamlárskvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyringar voru býsna duglegir að hirða upp flugeldarusl eftir skothríðina á gamlárskvöld.

Tilkynnt var fyrir áramót að starfsmenn bæjarins myndu ekki hirða draslið við lóðamörk, eins og stundum, heldur biðlað til bæjarbúa að koma því sjálfir í almennt rusl, og þeir svöruðu kallinu.

Margir lögðu leiða sína á gámasvæðið við Réttarhvamm strax um helgina, 2. og 3. janúar, og framhald varð á því í gær og fyrradag. Starfsmenn bæjarins fóru um og söfnuðu saman flugeldarusli á opnum svæðum í bænum og auk þess setti björgunarsveitin Súlur upp gám við höfuðstöðvar sínar við Hjalteyrargötu, sem starfsmenn Terra tæmdu í gær.

Helgi Pálsson, rekstrarstjóri Terra á Norðurlandi, rýndi í tölurnar að beiðni Akureyri.net og komst að því að bæjarstarfsmenn söfnuðu rúmu tonni – 1150 kg, 1920 kg voru í gámnum hjá Súlum en bæjarbúar skiluðu sjálfir 6,5 tonnum á gámasvæðið. Alls söfnuðust því rúm 9,5 tonn af flugeldarusli eftir áramótin!

Starfsmenn bæjarins tíndu reyndar ekki bara flugeldarusl síðustu daga, heldur hefur af nógu verið að taka hér og þar. Blaðamaður hitti þrjá starfsmenn steinsnar frá Krossanesi þar sem þeir höfðu fyllt lítinn pallbíl af alls kyns drasli á litlu svæði. Punkturinn yfir i-ið var heilt rúm sem þeir lyfta þarna upp á bílinn. Er ekki ráð að fólk hugsi sig aðeins um áður en það gerir svona nokkuð aftur? Það getur varla verið mikið erfiðara að skjótast á gámasvæðið en henda svona drasli á víðavangi.

Vantar þig rúm? Starfsmenn bæjarins sem unnu að hreinsun nálægt Krossanesi í gær hirtu meðal annars þetta rúm, sem einhver hafði verið svo „elskulegur“ að skilja eftir á víðavangi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.