Fara í efni
Fréttir

70 ungmenni greinast með krabbamein árlega

70 ungmenni greinast með krabbamein árlega

Kraft­ur, stuðnings­fé­lag fyr­ir ung fólk með krabba­mein, stendur í kvöld fyr­ir söfn­un­ar- og skemmtiþættinum Lífið er núna, í tilefni alþjóðlegs dags gegn krabbameini. Þátt­ur­inn klukkan 20.00 og verður í beinni út­send­ingu á Sjón­varpi Sím­ans, K100 og á mbl.is.

Kraft­ur hef­ur fengið fjöl­breytta skemmtikrafta og tón­listar­fólk í lið með sér til að skemmta áhorf­end­um, en þeirra á meðal eru GDRN, Valdi­mar, Ari Eld­járn, Sig­ríður Thorlacius og Páll Óskar. Þá verða þau Sóli Hólm og Sól­ey Kristjáns­dótt­ir kynn­ar kvölds­ins.

„Þátt­ur­inn verður skemmtiþátt­ur en um leið söfn­un­arþátt­ur,“ seg­ir Hulda Hjálm­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Krafts í tilkynningu. „Það skipt­ir okk­ur í Krafti miklu máli að njóta augna­bliks­ins og ætl­um við að bjóða lands­mönn­um að njóta með okk­ur fyr­ir fram­an sjón­varps­skjá­inn fimmtu­dag­inn næst­kom­andi ásamt því að kynna þeim starf fé­lags­ins. Við höf­um fengið frá­bæra lista­menn með okk­ur í lið og er ég viss um að all­ir munu geta notið stund­ar­inn­ar með okk­ur,“ seg­ir Hulda.

Grein­ing hef­ur áhrif á fjöl­marga

Lífið er núna þátt­ur­inn er loka­hnykk­ur í vit­und­ar- og ár­vekni­átaki sem Kraft­ur hef­ur staðið fyr­ir síðustu tvær vik­ur. Mark­mið átaks­ins er að vekja at­hygli á hversu marga krabba­mein snert­ir, selja húf­ur til styrkt­ar fé­lag­inu og starf­semi þess sem og að afla styrkja fyr­ir fé­lagið.

Um 70 ung­ir ein­stak­ling­ar grein­ast með krabba­mein á hverju ári og þegar fólk grein­ist með krabba­mein hef­ur það ekki ein­ung­is áhrif á það held­ur fjöl­marga í kring þar á meðal maka, for­eldra, börn, vini, vanda­menn og jafn­vel vinnu­fé­laga að því er seg­ir í til­kynn­ingu.

Áhorf­end­ur þátt­ar­ins geta lagt Krafti lið með því að kaupa húf­ur til styrk­ar fé­lag­inu, hringja inn í síma­ver og ger­ast mánaðarleg­ir styrkt­araðilar eða gefa stak­an styrk en einnig er hægt að senda SMS með skila­boðunum Kraft­ur í síma­núm­erið 1900 og renna þá 2500 krón­ur til Krafts af næsta sím­reikn­ingi.