Fara í efni
Fréttir

40 ár síðan RÚV hóf starfsemi á Akureyri

Björn Sigmundsson tæknimaður þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi á Akureyri í ágúst 1982. Skjáskot af vef RÚV.

Í dag eru 40 ár síðan reglubundin starfsemi Ríkisútvarpsins hófst á Akureyri. Það markaði jafnframt upphafið að starfi RÚV á landsbyggðinni. Þetta var rifjað í sjónvarpsfréttum í kvöld.

„14. ágúst 1982 hóf Ríkisútvarpið á Akureyri starfsemi með formlegum hætti. Þetta var stór áfangi í sögu Ríkisútvarpsins enda í fyrsta sinn sem deild frá stofnuninni, með fastráðnum starfsmönnum, tók til starfa utan Reykjavíkur,“ segir í frétt RÚV í kvöld. Starfsmenn voru tveir, Jónas Jónasson, sá kunni útvarpsmaður, og Björn Sigmundsson tæknimaður.

Ingvar Gíslason, sem gegndi stöðu menntamálaráðherra á þessum tíma, sagði í ávarpi í við þetta tækifæri að náðst hefði enn einn mikilvægur áfangi á starfsferli Ríkisútvarpsins. „Sá áfangi felst í því að upp frá þessari stundu er hafin reglubundin útvarpsstarfsemi á Akureyri með föstu starfsliði sem ekki ber að sinna öðrum verkefnum en þeim sem snerta norðlenskt útvarpsefni.“

Smellið hér til að sjá frétt RÚV um málið í kvöld.