Fara í efni
Fréttir

31 milljón í styrki til rannsakenda í HA

Yvonne Höller og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir Mynd af vef Háskólans á Akureyri.

Tveir rannsakendur við Háskólann á Akureyri fengu styrk úr Rannsóknarsjóði (Rannís) þegar tilkynnt var um úthlutanir fyrir helgi.

Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild, fékk 23 milljónir fyrir verkefnið Áhrif umhverfistengdra lífeðlisfræðilegra- og hugrænna áhættuþátta á árstíðarbundnar lyndissveiflur og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir hlaut doktorsnemastyrk að upphæð 8 milljónir. Verkefnið hennar heitir Samfélagsleg áhrif og félagslegt taumhald: ungar konur í sjávarþorpum.

Á vef Rannís kemur fram að 355 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð hafi borist og 82 þeirra verði styrktar, rúmlega 23% umsókna.

„Fjöldi nýrra verkefna er sá sami og í fyrra en þá hafði hann aldrei verið meiri eða 82 verkefni; úthlutuð heildarupphæð er sú hæsta frá upphafi. Styrkveitingar til nýrra verkefna nema á þessu ári 1,4 milljarði króna, en þar sem verkefnin eru almennt til þriggja ára verður heildarkostnaður vegna þeirra rúmlega 4 milljarðar króna á árunum 2022-2024. Auk styrkja til nýrra verkefna koma um 2,3 milljarðar til greiðslu á árinu vegna styrkja til eldri verkefna. Rannsóknasjóður mun einnig styrkja þátttöku íslenskra aðila í alþjóðlega samfjármögnuðum verkefnum,“ segir á vef Rannís.