Fara í efni
Fréttir

280 km ganga Einars með jólakort að baki

Hópur fólks frá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis tók á móti Einari við komuna til Akureyrar í kvöld. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson

Einar Skúlason, göngugarpur og bréfberi, kom til Akureyrar í kvöld eftir að hafa gengið tæpa 300 kílómetra frá Seyðisfirði til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Einar gekk eftir gamalli póstleið, hafði jólakort í farteskinu sem hann bar út á leiðinni og mörg sem hann á eftir að koma til skila á Akureyri.

„Þetta hefur gengið bara vel, ég er að klára á 11. göngudegi, það er betra en ég bjóst við. Ég bjóst við að ef allt gengi mjög vel þá yrði ég að minnsta kosti 12 daga,“ sagði Einar í samtali við Akureyri.net við komuna til bæjarins.

„Fyrsti göngudagurinn var erfiðastur, það var jafnfallinn mjög mikill snjór sem hafði fallið tvo dagana á undan. Það var því mikið loft í snjónum og þó ég væri í snjóþrúgum þá sökk ég mikið í hverju skrefi þannig að það tók mikið á. Sums staðar var færið hálfleiðinlegt en það minnkaði snjómagnið eftir því sem ég kom vestar, fannst mér, þó það kæmu aðeins breytilegar aðstæður.

Einar segir líkamlega þáttinn sennilega erfiðari en þann andlega þegar svona ganga er annars vegar. „Það reynir á að vera með rúmlega 20 kílóa poka og ganga upp undir 30 kílómetra á hverjum degi,“ segir hann og bætir við, um andlegu hliðina: Hugsunin fer í hringi og í allar áttir og einhvern veginn held ég að maður hafi bara gott af því að vera einn með sjálfum sér.

Fyrri fréttir Akureyri.net um Einar:

Einar við Mývatn, álag á liði ræður ferð

Einar gengur 280 km með jólakort

_ _ _

Enn er mögulegt að styrkja verkefnið með frjálsum framlögum og fá kveðju á vefinn líka. 

Hægt er að senda hvatningar- og jólakveðju sem birtist á þessari síðu. Frjáls framlög eru með slíkum kveðjum.

Greiðslur fara þannig fram að millifært er á eftirfarandi reikning í eigu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis:

Reikningur: 0302 - 13 - 301557

Kennitala: 520281-0109

  • Eftir að hafa greitt er fólk beðið að senda tölvupóst á kaon@krabb.is.

Einar við myndarammann skemmtilega nyrst í göngugötunni, við Ráðhústorg. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.