Fara í efni
Fréttir

26,8 stiga hiti um miðjan dag á Akureyri

Ljósmynd: Inga Vestmann.

Veðrið leikur við Akureyringa og fjölmarga gesti þeirra eins og undanfarnar vikur og hlýtt verður áfram næstu daga, þótt sennilega skíni sólin ekki jafn skært seinni hluta vikunnar og upp á síðkastið.

Klukkan rúmlega tvö í dag var hitinn 25,5 stig skv. mælingum á Akureyrarflugvelli þar sem grannt er fylgst með veðri og vindum. Klukkan þrjú var hitinn svo kominn upp í 26,8 gráður skv. vef Veðurstofunnar og nánast logn. Lygamælirinn á Ráðhústorgi sýndi 28 stiga hita um hálftíma síðar, en þar er ekki um opinber gögn að ræða.

  • Mesti hiti sem mælst hefur á Akureyri var 29,9 gráður 11. júlí árið 1911 og 23. júní 1974 fór hitinn í 29,4 stig skv. upplýsingum sem Trausti Jónsson hefur birt á vef Veðurstofu Íslands.

Útlit er fyrir einhverja rigningu í vikulokin, þótt enn verði hlýtt, og regn gæti einnig glatt bændur og búalið í byrjun næstu viku. Það yrði gott fyrir gróðurinn og rætist regnspáin verður mannfólkinu vonandi ekki meint af. Gott er að hafa í huga hið fornkveðna: Enginn er verri þótt hann vökni. Það hlýtur að eiga við enn í dag.

UPPFÆRT UNDIR KVÖLD - Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, upplýsir á Facebook að mælir Veðurstofu Íslands við Krossanesbraut hafi mælt 27,3 stiga hita í dag. Þetta sé því heitasti dagur sumarsins á Akureyri.

Inga Vestmann tók meðfylgjandi myndir í miðbæ Akureyrar í dag.