Fara í efni
Fréttir

Fá 24 milljónir til stígagerðar á Glerárdal

Glerárdalur er vinsælt útivistarsvæði.

Akureyrarbær fékk í dag úthlutað tæplega 24 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, vegna 2. áfanga við stígagerð og brúun í fólkvanginum á Glerárdal, frá bílastæði við Súluveg að Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar. 

Úthlutunin nemur 23.805.000 króna; rista á fyrir stíg og setja salla í hann, koma fyrir ræsum og brúa mýrlendi og læki á fjögurra kílómetra kafla. „Fólkvangurinn hefur fyrst núna eftir að stígagerð í fyrsta áfanga hófst orðið að mjög vinsælli göngu- og hjólaleið og margir hafa lagt leið sina fram dalinn. Búið er að vinna mikla skipulagsvinnu og teikna upp gönguleiðirnar,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra kynntu í dag, á sameiginlegum fundi, úthlutun ársins úr annars vegar Framkvæmdasjóði ferðamannastaða - 807 milljónir - og hins vegar Landsáætlun um uppbyggingu innviða - 764 milljónir.

Þess má geta að Eyjafjarðarsveit fékk úthluta 2,4 milljónum króna til að undirbúa og hanna göngu- og hjólaleiðir í Eyjafjarðarsveit. „Af samtals 24 leiðum hefur einungis lítill hluti leiðanna verið merktar, skráðar, stikaðar eða hnitsettar og lítið er um áningarstaði við upphaf þeirra. Verkefnið mun efla Eyjafjörð og nærliggjandi svæði á norðurlandi til muna þegar framkvæmdum við það lýkur. Verkefnið er prýðilegt innviðaverkefni enda snýr það að bættu öryggi, náttúruvernd og er auk þess á áfangastaðaáætlun svæðisins," segir í tilkynningu ráðuneytanna.

Smellið hér til að sjá allar úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða