Fara í efni
Fréttir

20 tonn af rusli síuð úr fráveituvatni!

20 tonn af rusli síuð úr fráveituvatni!

Klósettið er ekki ruslafata, segir í auglýsingu frá Norðurorku um óleyfilegt niðurhal. Einhver kann að halda að óþarft sé að benda á það en svo er sannarlega ekki. Rúmlega ár er síðan hreinsistöð fráveitu var tekin í notkun í Sandgerðisbót á Akureyri og á þeim tíma hafa 19,7 tonn af óæskilegum úrgangi verið síuð frá fráveituvatninu; 19,7 tonn af rusli sem annars hefðu borist út í Eyjafjörðinn.

Fráveituvatn er m.a. skólp, vatn frá upphitunarkerfum húsa og regn sem lendir í fráveitukerfum. Í stöðinni í Sandgerðisbót er allt slíkt fráveituvatn í bænum hreinsað áður en því er veitt út í fjörðinn.

„Það er svo sannarlega umhugsunarvert að svo mikið af rusli berist í fráveitukerfi Akureyringa á 12 mánuðum, með tilheyrandi ógn fyrir lífríkið auk þess sem það þyngir rekstur fráveitukerfisins og eykur kostnað vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi,“ segir í tilkynningu á vef Norðurorku.

Minni gerlamengun

„Auk þess að minnka það rusl sem berst út í Eyjafjörðinn hefur tilkoma hreinsistöðvarinnar einnig leitt til þess að dregið hefur úr gerlamengun meðfram strandlengjunni á Akureyri. Hreinsistöðin er því sannarlega stór áfangi í umhverfismálum fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð. Í skýrslu Umhverfisráðuneytisins „Ástand hafsins við Ísland“ sem kom út í september 2021, kemur m.a. fram að ástand sjávar (viðtaka) í Eyjafirði er gott og áhrif frá landi séu lítil horft til næringarefna,“ segir á vef Norðurorku.

Klósettið er ekki ruslafata

„Í fráveitukerfi Akureyringa eru margar dælur sem sjá til þess að fráveituvatn berist í hreinsistöðina í Sandgerðisbót þar sem það er hreinsað og því síðan veitt út í sjó. Það er mikilvægt að muna að t.d. blautklútar eiga ekki heima í fráveitukerfinu vegna þess að þeir, ásamt öðrum hlutum sem því miður eiga til að lenda í klósettinu, geta stíflað lagnir og skemmt dælubúnað. Kemísk efni, til að mynda málning, hreinsiefni og olíur, eiga aldrei að fara í fráveitukerfið,“ segir einnig á vef fyrirtækisins.

Að neðan er auglýsing Norðurork um óleyfilegt niðurhal. Fyrirtækið hefur hvatt fólk til þess að prenta það út og hengja upp til að minna sem flesta á að klósettið sé ekki ruslafata.