Fara í efni
Fréttir

19 sæti laus til Girona í júní vegna forfalla

Ferðaskrifstofan Heimsferðir stendur fyrir ferð frá Akureyri til Girona á Spáni fyrri hluta júnímánaðar. Um er að ræða sérferð sem ekki var í almennri sölu en vegna forfalla eru 19 sæti laus sem nú standa fólki til boða. Flogið verður utan 4. júní og heim aftur 13. júní.

„Þessi 19 sæti losnuðu vegna forfalla og ákveðið var að setja þau í almenna sölu,“ segir Hafsteinn M. Másson, markaðsstjóri ferðaskrifstofunnar.

„Hótelið er staðsett í sjarmerandi fiskiþorpinu Tossa de Mar, einungis 150 metra frá ströndinni. Bærinn sjálfur er lítill og stutt að ganga á veitingastaði, bari og í búðir. Herbergin eru öll með litlum svölum. Hægt er að velja um gistingu með morgunmat eða hálfu fæði – það er að segja morgunverði og kvöldverði – eða öllu inniföldu,“ segir Hafsteinn.

Ferðin kostar frá 125.500 krónum á mann miðað við að tveir fullorðnir séu saman í herbergi, að sögn Hafsteins. Tossa de Mar er tæpum 90 km norðan við Barcelona.