Fara í efni
Fréttir

120 erlendir ferðamenn lagðir inn á SAk í fyrra

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Rúmlega tvöfalt fleiri erlendir ferðamenn lögðust inn á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) á nýliðnu ári en árið þar á undan; 120 „ósjúkratryggðir einstaklingar“ lögðust inn á SAk í fyrra en 52 árið 2021. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar.

„Líklega ástæðu aukningarinnar má rekja til fjölgunar erlendra ferðamanna í kjölfar minni ferðatakamarkana af völdum Covid-19. Mestur er fjöldinn yfir sumarmánuðina með tilheyrandi álagi á deildir SAk. Um helmingur þeirra ferðamanna sem leggst inn á sjúkrahúsið koma frá Bandaríkjunum og Þýskalandi,“ segir á vef SAk.

Á vefnum segir að samhliða fjölgun erlendra ferðamanna megi ætla að fleiri þurfi að leita eftir heilbrigðisþjónustu. „Margir ferðamenn sækja á bráðamóttökur / heilsugæslustöð með minniháttar áverka eða væg veikindi en það er alltaf svo að nokkrir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús í einhvern tíma og fá þar sérhæfða þjónustu.“

Töluvert álag en ferðamenn ánægðir

„Því fylgir töluvert álag að taka á móti og annast fólk af erlendu bergi brotnu m.t.t. mismunandi tungumála og þörf fyrir túlkaþjónustu auk þess sem mikil vinna felst í umsýslu við tryggingamál og aðra umsýslu með hverjum þeim ósjúkratryggða einstaklingi sem leggjast þarf inn á sjúkrahúsið,“ segir á vef SAk. „Það er ánægjulegt að segja frá því að ferðamennirnir eru undantekningarlaust ánægðir með þjónustuna á SAk og hafa lang flest orð á því hvað umönnun og þjónusta sem þau fá frá öllum sem að þeirra málum koma sé góð og er það afar gott fyrir okkur að fá slíkan vitnisburð.“