Fara í efni
Fréttir

10 þúsundasta gröfin tekin á Akureyri í dag

Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, við leiði Soffíu Helgadóttur, vökukonu Kir…
Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, við leiði Soffíu Helgadóttur, vökukonu Kirkjugarðs Akureyrar eins og stendur á plötunni á krossinum. Soffía var jarðsett fyrst allra í garðinum, árið 1863. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í dag var 10 þúsundasta gröfin tekin á Akureyri. Það var gert í kirkjugarðinum á Naustahöfða, þar sem lang flestir eru jarðsettir, en innan bæjarmarkanna er einnig kirkjugarðurinn í Lögmannshlíð. Þar hvíla nokkur hundruð manns. 

Liðin eru 160 ár síðan fyrsta gröfin var tekin á Naustahöfða en miklu fyrr var farið að jarðsetja í Lögmannshlíð, sem þá var sveitagarður Kræklingahlíðarinnar, að sögn Smára Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar.

  • Fyrst allra var grafin í kirkjugarðinum á Naustahöfða Soffía Helgadóttir sem skráð var hreppsómagi frá Grísará. Hún lést 88 ára að aldri og var jarðsett í júlí árið 1863. Á krossi við leiðið er hún því skráð sem vökukona garðsins.
  • Í dag var Sólveig Kristjánsdóttir jarðsett á Naustahöfðanum, gröf hennar er sú 10 þúsundasta á Akureyri. Minningargrein um Dollu, eins og hún var alltaf kölluð í fjölskyldunni, birtist á Akureyri.net í dag. Greinina skrifaði tengdasonur hennar, Nói Björnsson. Smellið hér til að sjá grein Nóa.

Gröf Soffíu Helgadóttur er í suðaustur horni kirkjugarðsins. Þegar Soffía lést var kirkja Akureyringa í Fjörunni þar sem Minjasafnið er nú og kistan var borin upp bratta brekkuna beint ofan kirkjunnar.