Páll Óskar frumflytur nýtt lag á Akureyri

Páll Óskar Hjálmtýsson er reglulegur gestur um verslunarmannahelgi á Akureyri og árið í ár er engin undantekning. Hann var í óðaönn að pakka niður þegar blaðamaður akureyri.net náði tali af honum í dag og segist hlakka mikið til að koma norður og skemmta. Rúsínan í pylsuendanum er frumflutningur á nýju lagi, sem er að detta inn á streymisveitur.
„Lagið heitir Góður dagur og ég flyt það ásamt rapparanum Daniil,“ segir Palli. Nýja lagið var að lenda á Spotify og Palli var einmitt að fylgjast með viðtökunum í beinni þegar við ræddum saman. „Það er gjörsamlega að fljúga í gang,“ segir hann kátur og bætir við að Akureyringar og gestir þeirra fái fyrstir að sjá og heyra lagið flutt á sviði um helgina. Palli er einn þeirra sem koma fram á tónleikunum Öll í einu á Akureyrarvelli á laugardagskvöldið og að þeim loknum vippar hann sér ásamt Birni og Emmsjé Gauta í Sjallann þar sem slegið verður upp alvöru balli.
- Þeir sem hafa aðgang að Spotify geta hlustað á lagið með því að smella á myndina hér að neðan.
Palli rifjar upp þegar hann kom fyrst til Akureyrar árið 1991. „Þetta var rétt fyrir jólin, allt var á kafi í snjó og bæjarbúar búnir að skreyta húsin og jólaljós um allt. Mér leið eins og ég væri kominn í frí til Aspen eða einhvern svoleiðis skíðabæ,“ segir Palli dreyminn og nostalgían hríslast gegnum símann. „Mér hefur alltaf liðið þannig þegar ég kem til Akureyrar; eins og ég sé kominn á góðan stað í frí. Og er alltaf tekið opnum örmum,“ bætir hann við með áherslu.
Þykir vænt um Sjallann
Og tengingin við Sjallann er sterk. Enda hafa mörg Pallaböll verið haldin í því fornfræga húsi með yfirskriftinni Lokaball - en ennþá stendur Sjallinn keikur og iðar af lífi. Páll Óskar segist fyrst hafa komið fram þar árið 1993 með Milljónamæringunum. „Mér þykir persónulega bara svo vænt um þetta hús. Tengingin við áheyrendur er svo skilyrðislaus og andinn góði er enn til staðar. Ég finn sterkt fyrir honum,“ segir Palli ákveðinn og segist ekki vera sama um þetta þekkta samkomuhús. Það ætti frekar að halda því við og hlúa að því en rífa það.
Um þetta leyti árs er vinnuálagið alltaf tvöfalt hjá Palla, þar sem til viðbótar skemmtunum verslunarmannahelgarinnar kemur undirbúningur Gleðigöngunnar, sem er helgina á eftir. Palli segist hafa verið með í henni síðan 1999 og hefur einmitt verið á fullu undanfarið að klambra saman trukk fyrir gönguna í ár. En það er ekki svo að hann fíli ekki þetta aukna álag. „Ég vil að fólk skemmti sér, syngi með mér, öskursyngi, læri textana og kunni þá. Ég segi sannleikann, gef þeim von og reyni að bæta sjálfsímyndina hjá þeim. Þetta er mitt starf, ég vinn við að gera nákvæmlega þetta,“ segir Palli - og við öll sem höfum einhvern tímann mætt á Pallaball getum svo sannarlega tekið undir að Palli er réttur maður á réttum stað.