Valur Snær og Lilja Maren með forystu

Að loknum fyrsta keppnisdegi af fjórum á Akureyrarmótinu í golfi er Valur Snær Guðmundsson, ríkjandi Akureyrarmeistari, með forystu í meistaraflokki karla. Hann lék á 71 höggi eða pari Jaðarsvallar og er þremur höggum á undan Óskari Páli Valssyni. Stutt er í næstu menn þar á eftir og stefnir í mjög spennandi keppni.
Valur Snær lék nokkuð stöðugt golf í dag og tryggði forskotið með því að fá þrjá fugla á síðustu fjórum holunum.
Talsverður vindur var á köflum í dag og gerði kylfingum stundum erfitt fyrir. Sérstaklega var 13. brautin að stríða strákunum og 15 af 17 keppendum í meistaraflokki karla léku hana yfir pari! Þar af sáust fleiri en eitt skor upp á 10 högg, sem er afar fátítt hjá þessum bestu.
Lilja Maren Jónsdóttir hefur forystu í meistaraflokki kvenna eftir fyrsta keppnisdag á Akureyrarmótinu. Hún slær hér af 18. teig í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Í meistaraflokki kvenna er hin 16 ára gamla Lilja Maren Jónsdóttir með forystuna eftir fyrsta hringinn. Hún lék á 82 höggum, 11 yfir pari. Þrjár leika í meistaraflokki að þessu sinni, Kara Líf Antonsdóttir er í öðru sæti eftir fyrsta keppnisdag á 86 höggum og Björk Hannesdóttir þriðja á 91 höggi.
Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Akureyrarmeistari síðustu þriggja ára, er fjarri góðu gamni vegna þátttöku með kvennalandsliðinu á Evrópumótinu og því ljóst að nýtt nafn verður skráð á Akureyrarbikarinn í ár.
Óskar Páll Valsson, sem slær hér af fyrsta teig í dag, er annar í meistaraflokki karla. Óskar lék á 74 höggum, þremur yfir pari. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- Keppni í 1. flokki karla en spennandi þar lék Richard Eirikur Taehtinen á 80 höggum og hefur eins höggs forystu.
- Í 2. flokki karla eru þrír efstir og jafnir á 83 höggum; þeir Stefán Ólafur Jónsson, Óskar Jensson og Arnar Oddsson.
- Anton Benjamínsson hefur forystu í 3. flokki karla að loknum fyrsta keppnisdegi. Anton lék á 88 höggum og hefur tveggja högga forskot á næsta mann.
- Í öldungaflokki karla 50 ára og eldri var Anton Ingi Þorsteinsson í miklu stuði, lék á 70 höggum eða einu höggi undir pari. Hann hefur fimm högga forskot á næsta mann.
- Í flokki 70 ára og eldri er Birgir Ingvason strax kominn með ágætt forskot, hann lék fyrsta hringinn á 77 höggum eða níu höggum betur en næsti maður.
- Guðríður Sveinsdóttir hefur eins höggs forskot í 1. sæti í 1. flokki kvenna. Hún lék á 83 höggum í dag.
- Guðrún Karítas Finnsdóttir hefur 7 högga forystu í 2. flokki kvenna, lék á 96 höggum í dag.
- Í öldungaflokki kvenna 50 ára og eldri lék Guðrún Sigríður Steinsdóttir á als oddi og er langefst með 78 högg, 11 höggum á undan næstu konu.
Sunnanáttin fór nokkuð rösklega yfir á köflum í dag og gerði mörgum kylfingnum erfitt fyrir en veðurspáin næstu daga gefur fyrirheit um fyrirtaks aðstæður. Annar keppnisdagur hefst snemma í fyrramálið og síðustu kylfingar ljúka leik um kvöldmatarleytið.
Heildarstöðu í öllum flokkum má sjá hér.
Kara Líf Antonsdóttir er önnur í meistaraflokki kvenna á 86 höggum. Mynd: Skapti Hallgrímsson