Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Rachael og Sigrún fá rannsóknarstyrk Fulbright

Rachael Lorna Johnstone, Sigrún Sigurðardóttir, báðar frá Háskólanum á Akureyri, og Anna Karlsdóttir, lengst til hægri, Háskóla Íslands.

Þær Rachael Lorna Johnstone, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Akureyri og Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild skólans hafa verið valdar til þáttöku í Fulbright Arctic Initiative IV (FAI). Í fréttatilkynningu segir að þær hafi verið valdar sameiginlega af stjórn Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi og stjórn Fulbright í Bandaríkjunum, en FAI er flaggskip Fulbright á sviði Norðurskautsrannsókna.

Loftslagbreytingar og réttlát orkuskipti

Rachael fékk styrk ásamt Önnu Karlsdóttur, lektor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, en þær munu vera saman í vinnuhóp um loftslagsbreytingar og auðlindir á Norðurslóðum (Climate Change and Arctic Resources). „Þetta er mikill heiður og ég er mjög spennt fyrir því að hefja störf í vinnuhópnum,“ segir Rachael við blaðamann Akureyri.net. „Ég ætla að taka mér árs rannsóknarleyfi til þess að sinna þessu.“

„Vinnan fer að mestu leyti fram hérna heima, en við mætum þrisvar á fund í persónu, fyrst í Noregi í september,“ segir Rachael. „Annars verður fundað mánaðarlega eða oftar á netinu. Síðan verð ég í þrjá mánuði frá febrúar til apríl 2025 í Bandaríkjunum. Í Wilson stofnuninni í Washington DC, Polar institute, sem er rannsóknarsetur heimskautanna.“ 

Frumbyggjar á Norðurslóðum eru í viðkvæmri stöðu, sem dæmi má nefna stór landsvæði á heimkynnum Sama í Noregi sem eru ætluð undir vindorkugarða

Umsókn Rachael fjallar um réttlát orkuskipti á Norðurslóðum, eða Just energy transition for the Arctic. „Í þessu felst að vanda til verka þegar kemur að orkuskiptum til þess að bregðast við loftslagsbreytingum,“ segir Rachael. „Frumbyggjar á Norðurslóðum eru í viðkvæmri stöðu, sem dæmi má nefna stór landsvæði á heimkynnum Sama í Noregi sem eru ætluð undir vindorkugarða. Svona ákvarðanir þurfa að vera vandaðar og í samvinnu við heimafólk.“ 

Áhrif áfalla á geðheilbrigði frumbyggja

Sigrún Sigurðardóttir sérhæfir sig í áhrifum áfalla og ofbeldis, en hún kennir við hjúkrunarfræðideild HA. „Ég sótti um að taka þátt í verkefni er varðar geðheilsu og velferð á Norðurslóðum,“ segir Sigrún. Hún verður hluti fjölþjóðlegs teymis í verkefninu fyrir Fulbright. „Ofbeldi í nánum samböndum er vandamál á Norðurslóðum eins og víða, einnig eru sjálfsvíg tíð þar og ég mun nýta reynslu mína af því að sitja í fagráði gegn sjálsvígum hjá Embætti landlæknis og vinnu við nýja aðgerðaráætlun gegn sjálfsvígum.“ segir Sigrún. Hún valdi sér starfssvæði í Alaska, og verður í a.m.k. sex vikur staðsett í Anchorage við rannsóknir og fræðslu. „Loftslagsvandinn er líka áhrifavaldur í okkar rannsóknum, en vegna hlýnunar jarðar er fólk að missa heimili sín, lífsafkoma tekur breytingum og getur valdið áföllum og streitu,“ segir Sigrún.
 
„Ég veit ekkert hverjir verða með mér í teymi, við fengum bara að vita af styrknum fyrir viku síðan,“ segir Sigrún, en hún kveðst mjög spennt að byrja, en í september fer hún til Noregs í tengslum við verkefnið. „Ég er í raun að renna svolítið blint í sjóinn, ég er ekki búin að setja alveg saman hvernig næsta árið verður, en ég er mjög spennt.“ Sigrún er að koma úr árslöngu rannsóknarleyfi frá skólanum, en hún ætlar að samtvinna rannsóknarvinnuna fyrir Fulbright með kennslu á næsta ári.

Mikill heiður fyrir HA

Þetta er fjórða lota Fulbright Arctic Initiative, en markmið áætlunarinnar er að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á sviði Norðurskautsfræða. Um er að ræða 18 mánaða verkefni sem hefst haustið 2024 með þátttöku 19 fræði- og vísindamanna frá sjö ríkjum Norðurskautsráðsins. Í fyrstu tveimur lotum FAI tilnefndi Ísland einn styrkþega, tvo í þriðju lotu, en fær í fjórðu lotu úthlutað þremur sætum. Það er ekki síst vegna fjárframlags sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veitir sérstaklega til Fulbright stofnunarinnar vegna verkefnisins.

Það er rós í hnappagatið hjá Háskólanum á Akureyri að eiga tvo fulltrúa úr fræðasamfélagi skólans í hópi styrkþega.